Íslenski boltinn

Segir að Sveindís hefði átt að yfirgefa Keflavík fyrir löngu

Sindri Sverrisson skrifar
Sveindís Jane Jónsdóttir hefur farið á kostum með Breiðabliki í sumar.
Sveindís Jane Jónsdóttir hefur farið á kostum með Breiðabliki í sumar. vísir/daníel

Þorsteinn Halldórsson segir ljóst að Sveindís Jane Jónsdóttir, ein nýjasta stjarna íslenska landsliðsins í fótbolta, hefði átt að fara mun fyrr frá Keflavík í sterkara lið.

Þorsteinn er þjálfari Breiðabliks sem fékk Sveindísi að láni frá uppeldisfélagi hennar Keflavík síðasta vetur, til eins árs.  Hún er markahæst í Pepsi Max-deildinni með 14 mörk. Óvíst er hvað tekur við hjá Sveindísi eftir tímabilið, sem gæti endað með Íslands- og bikarmeistaratitli ef allt gengur að óskum.

Þorsteinn segir í samtali við dv.is ljóst að erlend félög gætu reynt að fá Sveindísi, sem er 19 ára, eftir tímabilið. Frábær innkoma hennar í íslenska landsliðið, í 9-0 sigrinum gegn Lettum og 1-1 jafnteflinu við Svía, skemmir ekki fyrir.

„Það eina sem ég sé núna er að hún átti að vera löngu búin að fara í sterkara lið. Það er leiðinlegt að segja það við Keflavík en hún hefði höndlað þetta skref miklu fyrr, hún hefði mátt koma til okkar fyrir einu eða tveimur árum,“ sagði Þorsteinn við DV.

„Hún hefði þurft sterkara æfingaumhverfi fyrr, það er ekki hægt að gagnrýna neitt. Keflavík á allt í henni, við vorum ekki að finna hana upp. Ég spyr mig að því hvar hún væri stödd ef hún hefði komið fyrr til okkar eða eitthvert annað í sterkara umhverfi,“ sagði Þorsteinn.


Tengdar fréttir

Földu löngu innköstin hennar Sveindísar gegn Lettum

Bára Kristbjörg Rúnarsdóttir segir að það hafi verið klókt hjá landsliðsþjálfaranum Jóni Þór Haukssyni að fela löngu innköstin hennar Sveindísar Jane Jónsdóttur gegn Lettum til að koma Svíum á óvart.

Sveindís: Besta lið sem ég hef spilað á móti

„Eftir hvernig leikurinn spilaðist þá erum við svekktar að hafa náð bara einu stigi,“ sagði Sveindís Jane Jónsdóttir, leikmaður íslenska kvennalandsliðsins, eftir 1-1 jafnteflið gegn Svíþjóð í kvöld.

Vorsabæjarfrænkurnar með fimm mörk

Íslenska kvennalandsliðið í knattspyrnu skoraði níu mörk gegn Lettlandi á Laugardalsvelli í gær. Fimm markanna komu frá frænkum í liðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×