Erlent

Cor­byn vikið úr Verka­manna­flokknum

Atli Ísleifsson skrifar
Jeremy Corbyn var leiðtogi breska Verkamannaflokksins á árunum 2015 til 2019.
Jeremy Corbyn var leiðtogi breska Verkamannaflokksins á árunum 2015 til 2019. Getty

Jeremy Corbyn, fyrrverandi leiðtogi breska Verkamannaflokksins, hefur verið rekinn úr flokknum í kjölfar ummæla um nýja skýrslu þar sem fjallað er um hvernig flokkurinn hafi brotið lög í tengslum við gyðingahatur innan flokksins í formennskutíð hans.

„Í ljósi athugasemda hans í dag, og að hann hafi neitað að draga ummælin til baka, hefur Verkamannaflokkurinn vikið Jeremy Corbyn úr flokknum á meðan málið er rannsakað,“ segir talsmaður flokksins í samtali við Sky News.

Corbyn hefur einnig verið vikið úr þingflokki Verkamannaflokksins á breska þinginu.

Corbyn lét af embætti formanns Verkamannaflokksins í apríl og hefur sagt ásakanir um að skipulegt gyðingahatur hafi viðgengist innan flokksins hafa verið „ýktar af pólitískum ástæðum“.

Keir Starmer, sem tók við embætti formanns af Corbyn, segir flokkinn hafa brugðist gyðingum og að flokkurinn muni bregðast við þeim ábendingum sem tíundaðar eru í skýrslunni.

„Þetta er dagur skammar fyrir Verkamannaflokkinn. Við höfum brugðist gyðingum, flokksmönnum, stuðningsmönnum og breskum almenningi,“ segir Stramer.

Jafnréttis- og mannréttindaráð breskra stjórnvalda (EHRC) hefur í tvö ár rannsakað ásakanir um gyðingahatur innan Verkamannaflokksins. Í skýrslunni segir að í formennskutíð Corbyn, frá 2015 til 2019 hafi, flokkurinn ítrekað hunsað eða dregið úr kvörtunum frá gyðingum í flokknum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×