Erlent

Ætlar sér að mynda breiða ríkisstjórn í Ísrael

Samúel Karl Ólason skrifar
Benny Gantz, leiðtogi Bláhvíta bandalagsins.
Benny Gantz, leiðtogi Bláhvíta bandalagsins. AP/Sebastian Scheiner

Benny Gantz, andstæðingur Benjamin Netanyahu, heitir því að mynda breiða ríkisstjórn í Ísrael. Hann fékk stjórnarmyndunarumboð frá Reuven Rivlin, forseta, í gær en þeir tveir, auk Netanyahu, funduðu um þann möguleika á að mynda þjóðstjórn.

Kjósendur í Ísrael gengu fyrr í mánuðinum að kjörborðunum í þriðja sinn á einu ári. Engum hefur tekist að mynda ríkisstjórn hingað til, þrátt fyrir margar tilraunir.

Hugmyndin um þjóðstjórn virðist ekki hafa skilað árangri en Avigdor Liberman, leiðtogi Yisrael Beiteinu, lýsti í gærkvöldi yfir stuðningi við Gantz.

Samkvæmt Times of Israel þykir það að mörgu leyti undarlegt þar sem Liberman hefur talað um arabíska þingmenn sem hryðjuverkamenn og Gantz ætlar sér að mynda ríkisstjórn með Arabalistanum.

Gantz, sem leiðir Bláhvíta bandalagið, hét því að starfa í þágu allra Ísraela og skaut hann einnig á Netyanyahu og sagði að fylking hans myndi ekki koma niður á lýðræðislegum gildum, eins og hann hefur sakað Netanyahu um að gera.

Hann sagðist ætla að reyna að mynda þessa ríkisstjórn innan nokkurra daga.

„Ríkisstjórn sem ég leið mun hjálpa samfélagi Ísrael að jafna sig á kórónuveirunni og sömuleiðis á veiru deilna og haturs,“ sagði Gantz, samkvæmt frétt Times of Israel.

Gantz biðlaði þó til Netanyahu og annarra stjórnmálamanna um að draga úr árásum á aðra og ganga til liðs við sig.


Tengdar fréttir

Netanyahu lýsir yfir sigri

Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísrael, hefur lýst yfir sigri í kosningunum sem haldnar voru í gær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×