Erlent

Dauðsföllum fjölgar hratt í Bretlandi

Samúel Karl Ólason skrifar
Sjúkraflutningamenn á Bretlandi undirbúa sig fyrir útkall.
Sjúkraflutningamenn á Bretlandi undirbúa sig fyrir útkall. AP/Kirsty Wigglesworth

Dauðsföllum vegna nýju kórónuveirunnar fjölgaði um 381 í Bretlandi á síðasta sólarhring. Það samsvarar 27 prósenta fjölgun þar sem heildarfjöldi látinna er nú 1.808, samkvæmt Sky News. Í gær fjölgaði látnum um 180. Í morgun klukkan hafði staðfestum smitum fjölgað um fjórtán prósent og voru þau 25.150.

Heilbrigðisyfirvöld Englands segja hina dánu á aldrinum 19 til 98 og að allir nema 28 af þeim 367 sem dóu þar, hafi glímt við undirliggjandi veikindi. Sá sem var 19 ára var ekki veikur fyrir, þegar hann fékk Covid-19, sjúkdóminn sem nýja kórónuveiran veldur.

Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, stýrði ríkisstjórnarfundi í morgun en hann er í einangrun í ráðherrabústaðnum þar sem hann hefur greinst með Covid-19. Hann sagði að ástandið yrði verra áður en það yrði betra á nýjan leik.

Þá sagði hann hina miklu fjölgun dagsins sýna fram á mikilvægi þess að Bretar fylgdu fyrirmælum og félagsforðun.

Samkvæmt Hagstofu Bretlands eru ummerki um að fjöldi látinna sé í raun um fjórðungi hærri en talið er. Það sé vegna þess að fólk sem deyi á heimilum sínum og dvalarheimilum sé ekki talið með. Þetta kemur fram í frétt Sunday Times (Áskriftarvefur).




Fleiri fréttir

Sjá meira


×