Erlent

Vara ríki við að draga úr ráð­stöfunum og segja einum hags­munum skipt út fyrir aðra

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
WHO varar við þeirri þróun að ríki dragi úr aðgerðum til að hindra útbreiðslu veirunnar.
WHO varar við þeirri þróun að ríki dragi úr aðgerðum til að hindra útbreiðslu veirunnar. epa/Neil Hall

Alþjóðaheilbrigðisstofnunin segir ekki skynsamlegt að slaka á sóttvarnakröfum á þessum tímapunkti og að með ákvörðunum um að stytta einangrunartímabilið vegna Covid-19 sé verið að skipta út einum hagsmunum fyrir aðra.

Hvert ríkið á fætur öðru hefur í þessari viku tilkynnt um styttingu þess tíma sem Covid-veikir þurfa að sæta einangrun. Á sama tíma er metfjöldi að greinast í þessum sömu ríkjum.

Bandaríkin réðu á vaðið og tilkynntu styttingu tímabilsins úr tíu dögum í fimm en á Spáni hefur tíminn verið styttur úr tíu í sjö og á Englandi þurfa þeir sem greinast neikvæðir í heima- eða hraðprófi á sjötta og sjöunda degi ekki lengur að einangra sig heima við.

Talsmenn Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar segja hins vegar að þarna sé verið að fórna þeim hagsmunum sem snúa að því að hamla útbreiðslu faraldursins fyrir hagsmuni efnahagslífsins.

Michael Ryan, framkvæmdastjóri hjá WHO, segir ekki skynsamlegt að draga úr sóttvarnaráðstöfunum og að varhugavert sé að breyta um taktík á forsendum þeirra takmörkuðu upplýsinga sem liggja fyrir um nýja afbrigðið, ómíkron.

Metfjöldi greindist með kórónuveiruna á Bretlandseyjum, Frakklandi, Portúgal og Argentínu í gær. Þá sagði heilbrigðisráðherra Þýskalands, Karl Lauterbach, að raunverulegur fjöldi smitaðra væri líklega tvisvar til þrisvar sinnum meiri en opinberar tölur gæfu til kynna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×