Erlent

Ó­næmis­fræðingi barst byssu­kúla í pósti

Viktor Örn Ásgeirsson skrifar
Antonella Viola prófessor í ónæmisfræði.
Antonella Viola prófessor í ónæmisfræði. Getty/Candeamo

Einum fremsta ónæmisfræðingi Ítalía barst byssukúla í pósti nýverið. Hún nýtur nú lögregluverndar. 

Ítalir hófu að bólusetja börn á aldrinum fimm til ellefu ára í síðasta mánuði og ákvörðunin hefur ekki verið óumdeild.

Antonella Viola, ónæmisfræðingurinn, hefur verið ötull talsmaður fyrir bólusetningum barna nú síðustu vikurnar í faraldrinum.

Í bréfinu sem henni barst sagði að hún og fjölskylda hennar yrðu skotin til bana ef hún hætti ekki að mæla með bólusetningu barna.

„Þessir einstaklingar eru á móti bólusetningum. Þeir spúa hatri, hafna vísindarökum og lögum og beita ofbeldi. Ég mun halda áfram að ráðleggja foreldrum að bólusetja börnin sín af því það er það rétta í stöðunni,“ sagði Antonella um hótunina við ítalska fjölmiðla. 

Antonella kvaðst aldrei ætla að hætta að tala fyrir vísindum og bað efasemdamenn um að hlusta.

Breska ríkisútvarpið greinir frá.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×