Innlent

Fjórir hand­teknir vegna líkams­á­rásar í heima­húsi

Atli Ísleifsson skrifar
Tilkynning barst til lögreglu upp úr klukkan 22:30.
Tilkynning barst til lögreglu upp úr klukkan 22:30. Vísir/Vilhelm

Lögregla á höfuðborgarsvæðinu handtók í gærkvöldi fjóra vegna líkamsárásar í heimahúsi.

Tilkynning barst lögreglu upp úr klukkan 22:30, en í dagbók lögreglu er ekki gefið upp hvar árásin átti sér stað að öðru leyti en því að hún varð á svæði lögreglustöðvar 1 sem nær yfir miðborg Reykjavíkur og Seltjarnarnes.

Ennfremur segir að einn til viðbótar hafi verið handtekinn skammt frá vettvangi þar sem hann hafi reynt að komast inn í hús sem hann taldi vera það sama og árásin hafi átt sér stað í.

„Á einum mannanna fundust fíkniefni í söluumbúðum ásamt ætluðum ágóða af fíkniefnasölu en á öðrum fannst vopn sem var haldlagt. Málið er í rannsókn,“ segir í dagbók lögreglu.

Ennfremur segir í tilkynningunni frá lögreglu að upp úr klukkan tvö í nótt hafi ökumaður verið stöðvaður vegna gruns um akstur undir áhrifum fíkniefna og án réttinda. Hann var látinn laus eftir hefðbundið ferli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×