Handbolti

Ísland dróst gegn Ungverjalandi í umspili um sæti á HM

Smári Jökull Jónsson skrifar
Steinunn Björnsdóttir er lykilleikmaður í íslenska liðinu.
Steinunn Björnsdóttir er lykilleikmaður í íslenska liðinu. Vísir/Hulda Margrét

Nú rétt í þessu var dregið í umspil Evrópuþjóða fyrir heimsmeistarakeppni kvenna í handknattleik sem fram fer í Danmörku, Noregi og Svíþjóð á næsta ári. Ísland dróst gegn Ungverjalandi en umspilsleikirnir fara fram í apríl á næsta ári.

Ísland tryggði sér sæti í umspilinu eftir tvo sigra á Ísrael í byrjun mánaðarins. Ísland var í neðri styrkleikaflokki fyrir dráttinn í dag og því vitað að andstæðingar þess yrði þjóð sem fyrirfram er talin sterkari á pappírunum.

Andstæðingar Íslands verða Ungverjaland sem komst í milliriðil á Evrópumótinu sem lýkur með úrslitaleik í Slóveníu á morgun. Ungverska liðið var í riðli með Noregi, Króatíu og Sviss og komust upp úr þeim riðli með tvö stig eftir að hafa unnið Sviss en tapað fyrir Króatíu og með tíu marka mun gegn Noregi.

Í milliriðlinum vann Ungverjaland einn leik, gegn heimakonum í Slóveníu, og endaði því í neðsta sæti síns milliriðils.

Fyrri leikur Íslands og Ungverjalands verður leikinn 7. eða 8.apríl á næsta ári og sá síðari 11. eða 12.apríl.

Ísland hefur einu sinni náð sæti á lokakeppni heimsmeistaramótsins. Það var árið 2011 þar sem Ísland lenti í 4.sæti í sínum riðli en féll úr leik í 16-liða úrslitum gegn Rússum. 

Þá hefur Ísland tekið þátt í tveimur lokakeppnum Evrópumótsins, árin 2010 og 2012. Í bæð skiptin tapaði Ísland öllum þremur leikjum sínum í riðlakeppninni og komst ekki áfram í milliriðla.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×