Innlent

Ólöglegir með fíkniefni og ölvaður á hóteli

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Tvö fíkniefnamál komu upp í gærkvöldi þar sem um var að ræða einstaklinga í ólöglegri dvöl.
Tvö fíkniefnamál komu upp í gærkvöldi þar sem um var að ræða einstaklinga í ólöglegri dvöl. Vísir/Vilhelm

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hafði afskipti af tveimur mönnum sem reyndust dvelja ólöglega hér á landi í gærkvöldi og nótt. Um var að ræða tvö aðskilin mál.

Í öðru málinu voru afskipti höfð af einstaklingi vegna gruns um vörslu fíkniefna. Við nánari skoðun kom í ljós að einstaklingurinn var hér í „ólöglegri dvöl“, eins og það er orðað í tilkynningu lögreglu yfir verkefni vaktarinnar, og var hann vistaður í fangageymslu.

Í hinu málinu voru höfð afskipti af manni í Kópavogi sem sömuleiðis var grunaður um vörslu fíkniefna og reyndist sömuleiðis dvelja ólöglega hér á landi. Sá var líka vistaður í fangageymslu.

Lögregla var kölluð til vegna þjófnaðar úr verslun í póstnúmerinu 108 og umferðaróhapps í sama hverfi. Lítið tjón varð á bifreiðinni sem lenti í óhappinu en henni hafði verið ekið útaf og inn í snjóruðning, þar sem hún sat föst. Ökumaður er grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna.

Þá var óskað aðstoðar lögreglu í Hlíðahverfinu vegna ölvaðs einstaklings sem neitaði að yfirgefa hótel. Hann var ekki gestur á hótelinu og var vísað út.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×