Umfjöllun og viðtöl: FH - Breiðablik 1-1 | Jafnt í stórleiknum Ingvi Þór Sæmundsson skrifar 29. júlí 2023 16:45 Blikar fóru með eitt stig úr Kaplakrika. vísir/vilhelm FH og Breiðablik skildu jöfn, 1-1, í fyrsta leik dagsins í Bestu deild kvenna í fótbolta. Bæði mörkin komu í fyrri hálfleik. Vigdís Edda Friðriksdóttir kom FH-ingum yfir eftir sex mínútna leik en Birta Georgsdóttir jafnaði mínútu fyrir hálfleik og þar við sat. Þetta var fyrsti leikur liðanna eftir þriggja vikna hlé og fætur leikmanna virkuðu ansi þungir í seinni hálfleik sem var öllu daufari en stórskemmtilegur fyrri hálfleikurinn. FH-ingar byrjuðu leikinn af krafti og spiluðu eins og þeir gera best, með því að pressa og sækja af krafti. Og það skilaði marki strax á 6. mínútu. Vigdís skoraði þá eftir undirbúning Mackenzie George og Shainu Ashouri. FH var með undirtökin eftir þetta og Breiðabliki gekk illa að leysa pressu heimakvenna. Það lagaðist eftir því sem leið á fyrri hálfleikinn og FH-ingar voru líka full hjálplegir við gestina úr Kópavogi. Á 25. mínútu tapaði Shaina boltanum á stórhættulegum stað, Birta var fljót að nýta sér það og sendi Andreu Rut Bjarnadóttur í gegn en Aldís Guðlaugsdóttir varði skot hennar. Blikar fengu annað dauðafæri á 32. mínútu þegar Andrea sendi fyrir á Öglu Maríu Albertsdóttur sem lék á Aldísi en kom ekki skoti á markið. Skömmu síðar fékk Shaina dauðafæri en skallaði framhjá. En það hlaut að koma að því að Breiðablik jafnaði og það gerðist mínútu fyrir hálfleik. Hafrún Rakel Halldórsdóttir stal þá boltanum af Colleen Kennedy og sendi fyrir á Birtu sem skoraði af stuttu færi. Seinni hálfleikurinn var frekar bragðdaufur og tíðindalítill. Bæði lið áttu ágætis kafla en þeir voru stuttir og hvorugt liðanna náði almennilegri stjórn á leiknum. Hafrún Rakel var hættulegasti leikmaður Breiðabliks í seinni hálfleik en hún átti tvö skot sem Aldís varði. Hún varði einnig vel frá Öglu Maríu eftir vel útfærða hornspyrnu. Annars varðist FH-liðið mjög vel í seinni hálfleik með miðverðina Örnu Eiríksdóttur og Heidi Giles í fararbroddi. FH fékk svo besta færið í seinni hálfleik á 82. mínútu þegar Mackenzie komst í góða stöðu en varnarmenn Breiðabliks komust fyrir skot hennar. Mörkin urðu ekki fleiri og jafntefli líklega sanngjarnasta niðurstaðan í jöfnum leik. FH-ingar eru þó líklega sáttari með eigin spilamennsku en liðið heldur áfram að sýna að það er í hópi þeirra bestu á landinu og það á sínum eigin forsendum, með hugrekki, dugnað og baráttugleði að vopni. Guðni: Sá engan mun á FH-liðinu Guðni Eiríksson þjálfar FH ásamt bróður sínum, Hlyni.vísir/hulda margrét Guðni Eiríksson, annar þjálfara FH, kvaðst stoltur af sínu liði eftir jafnteflið við Breiðablik í dag. „Við getum sannarlega gengið stoltar frá borði. Frammistaðan hjá FH-liðinu í dag var fín og eitt stig kom í pokann. Við hefðum viljað þrjú en við verðum að taka þessu,“ sagði Guðni eftir leikinn. FH byrjaði leikinn af fítonskrafti og náði forystunni á 6. mínútu. Breiðablik komst svo betur inn í leikinn eftir því sem á fyrri hálfleikinn leið. FH-ingar voru þó sjálfir verstir í mörgum tilfellum. „Þetta Blikalið er skipað frábærum leikmönnum, hvort sem maður horfir á byrjunarliðið eða bekkinn. Þetta er lið sem má ekki gefa tíma og við megum ekki gera mistök á slæmum stöðum. Þegar þú talar að þær hafi komist inn í leikinn er það yfirleitt eftir eitthvað klúður hjá FH-liðinu þar sem þær sækja hratt á okkur, við náum ekki að klukka þær og þær ógna okkur,“ sagði Guðni. Hann var mjög sáttur við varnarleik FH í seinni hálfleiknum. „Algjörlega. Við hefðum getað fengið meira út úr þessum leik. Við fengum góðar opnanir og þær sköpuðu sér ekkert sérstaklega mikið í seinni hálfleik,“ sagði Guðni. Honum fannst ekki sjást á sínu liði í dag að þrjár vikur séu síðan þær spiluðu síðast leik. „Mér fannst formið mjög gott. Við nýttum hléið mjög vel og ég sá engan mun á FH-liðinu. Við vorum bara sprækar og tilbúnar að hlaupa eins og vanalega,“ sagði Guðni að lokum. Ásmundur: Byrjuðum hálf dofnar Ásmundur Arnarsson hrósaði Blikunum sínum fyrir að koma til baka gegn FH-ingum.vísir/diego Ásmundur Arnarsson, þjálfari Breiðabliks, var ekki sáttur með hvernig liðið byrjaði leikinn gegn FH í Kaplakrika í dag. „Við erum alltaf svekkt að vinna ekki. Við mætum í alla leiki til að ná í þrjú stig. Maður er aldrei sáttur með eitt stig en við getum sagt að þetta sé erfiður útivöllur og FH gott lið. Við virðum stigið,“ sagði Ásmundur eftir leikinn. „Við gerðum okkur þetta erfitt fyrir. Við gerðum það sem við ætluðum alls ekki að gera. Við vissum að FH-ingar byrja sterkt og við ætluðum að mæta því en í staðinn byrjuðum við hálf dofnar. Við vorum ekki góðar í byrjun, mikið um misheppnaðar sendingar og lengi að átta okkur á hlutunum. Það var ekki fyrr en við fengum á okkur mark sem við fórum almennilega í gang. Það er hægt að hrósa stelpunum fyrir að snúa til baka, svara og jafna fyrir hlé. Það var gríðarlega sterkt.“ Fátt markvert gerðist í seinni hálfleiknum. „Mér fannst við stjórna honum án þess þó að skapa okkur nógu góð færi. Það vantaði herslumuninn. Við áttum einhverja möguleika en okkur vantaði meiri gæði til að klára þetta.“ Ásmundi fannst það sjást að það eru þrjár vikur síðan Breiðablik spilaði síðast. „Mér fannst það spila inn í. Fæturnir voru þungir, við vorum ryðgaðar og við þurfum að komast í takt aftur,“ sagði Ásmundur. En hvað var hann sáttastur með hjá sínu liði í dag? „Maður er alltaf sáttur með að svara og koma til baka. Ég er sáttur með vinnusemina og fullt af hlutum. En við vildum gera betur og þurftum að gera betur til að vinna í dag,“ sagði Ásmundur að endingu. Besta deild kvenna FH Breiðablik
FH og Breiðablik skildu jöfn, 1-1, í fyrsta leik dagsins í Bestu deild kvenna í fótbolta. Bæði mörkin komu í fyrri hálfleik. Vigdís Edda Friðriksdóttir kom FH-ingum yfir eftir sex mínútna leik en Birta Georgsdóttir jafnaði mínútu fyrir hálfleik og þar við sat. Þetta var fyrsti leikur liðanna eftir þriggja vikna hlé og fætur leikmanna virkuðu ansi þungir í seinni hálfleik sem var öllu daufari en stórskemmtilegur fyrri hálfleikurinn. FH-ingar byrjuðu leikinn af krafti og spiluðu eins og þeir gera best, með því að pressa og sækja af krafti. Og það skilaði marki strax á 6. mínútu. Vigdís skoraði þá eftir undirbúning Mackenzie George og Shainu Ashouri. FH var með undirtökin eftir þetta og Breiðabliki gekk illa að leysa pressu heimakvenna. Það lagaðist eftir því sem leið á fyrri hálfleikinn og FH-ingar voru líka full hjálplegir við gestina úr Kópavogi. Á 25. mínútu tapaði Shaina boltanum á stórhættulegum stað, Birta var fljót að nýta sér það og sendi Andreu Rut Bjarnadóttur í gegn en Aldís Guðlaugsdóttir varði skot hennar. Blikar fengu annað dauðafæri á 32. mínútu þegar Andrea sendi fyrir á Öglu Maríu Albertsdóttur sem lék á Aldísi en kom ekki skoti á markið. Skömmu síðar fékk Shaina dauðafæri en skallaði framhjá. En það hlaut að koma að því að Breiðablik jafnaði og það gerðist mínútu fyrir hálfleik. Hafrún Rakel Halldórsdóttir stal þá boltanum af Colleen Kennedy og sendi fyrir á Birtu sem skoraði af stuttu færi. Seinni hálfleikurinn var frekar bragðdaufur og tíðindalítill. Bæði lið áttu ágætis kafla en þeir voru stuttir og hvorugt liðanna náði almennilegri stjórn á leiknum. Hafrún Rakel var hættulegasti leikmaður Breiðabliks í seinni hálfleik en hún átti tvö skot sem Aldís varði. Hún varði einnig vel frá Öglu Maríu eftir vel útfærða hornspyrnu. Annars varðist FH-liðið mjög vel í seinni hálfleik með miðverðina Örnu Eiríksdóttur og Heidi Giles í fararbroddi. FH fékk svo besta færið í seinni hálfleik á 82. mínútu þegar Mackenzie komst í góða stöðu en varnarmenn Breiðabliks komust fyrir skot hennar. Mörkin urðu ekki fleiri og jafntefli líklega sanngjarnasta niðurstaðan í jöfnum leik. FH-ingar eru þó líklega sáttari með eigin spilamennsku en liðið heldur áfram að sýna að það er í hópi þeirra bestu á landinu og það á sínum eigin forsendum, með hugrekki, dugnað og baráttugleði að vopni. Guðni: Sá engan mun á FH-liðinu Guðni Eiríksson þjálfar FH ásamt bróður sínum, Hlyni.vísir/hulda margrét Guðni Eiríksson, annar þjálfara FH, kvaðst stoltur af sínu liði eftir jafnteflið við Breiðablik í dag. „Við getum sannarlega gengið stoltar frá borði. Frammistaðan hjá FH-liðinu í dag var fín og eitt stig kom í pokann. Við hefðum viljað þrjú en við verðum að taka þessu,“ sagði Guðni eftir leikinn. FH byrjaði leikinn af fítonskrafti og náði forystunni á 6. mínútu. Breiðablik komst svo betur inn í leikinn eftir því sem á fyrri hálfleikinn leið. FH-ingar voru þó sjálfir verstir í mörgum tilfellum. „Þetta Blikalið er skipað frábærum leikmönnum, hvort sem maður horfir á byrjunarliðið eða bekkinn. Þetta er lið sem má ekki gefa tíma og við megum ekki gera mistök á slæmum stöðum. Þegar þú talar að þær hafi komist inn í leikinn er það yfirleitt eftir eitthvað klúður hjá FH-liðinu þar sem þær sækja hratt á okkur, við náum ekki að klukka þær og þær ógna okkur,“ sagði Guðni. Hann var mjög sáttur við varnarleik FH í seinni hálfleiknum. „Algjörlega. Við hefðum getað fengið meira út úr þessum leik. Við fengum góðar opnanir og þær sköpuðu sér ekkert sérstaklega mikið í seinni hálfleik,“ sagði Guðni. Honum fannst ekki sjást á sínu liði í dag að þrjár vikur séu síðan þær spiluðu síðast leik. „Mér fannst formið mjög gott. Við nýttum hléið mjög vel og ég sá engan mun á FH-liðinu. Við vorum bara sprækar og tilbúnar að hlaupa eins og vanalega,“ sagði Guðni að lokum. Ásmundur: Byrjuðum hálf dofnar Ásmundur Arnarsson hrósaði Blikunum sínum fyrir að koma til baka gegn FH-ingum.vísir/diego Ásmundur Arnarsson, þjálfari Breiðabliks, var ekki sáttur með hvernig liðið byrjaði leikinn gegn FH í Kaplakrika í dag. „Við erum alltaf svekkt að vinna ekki. Við mætum í alla leiki til að ná í þrjú stig. Maður er aldrei sáttur með eitt stig en við getum sagt að þetta sé erfiður útivöllur og FH gott lið. Við virðum stigið,“ sagði Ásmundur eftir leikinn. „Við gerðum okkur þetta erfitt fyrir. Við gerðum það sem við ætluðum alls ekki að gera. Við vissum að FH-ingar byrja sterkt og við ætluðum að mæta því en í staðinn byrjuðum við hálf dofnar. Við vorum ekki góðar í byrjun, mikið um misheppnaðar sendingar og lengi að átta okkur á hlutunum. Það var ekki fyrr en við fengum á okkur mark sem við fórum almennilega í gang. Það er hægt að hrósa stelpunum fyrir að snúa til baka, svara og jafna fyrir hlé. Það var gríðarlega sterkt.“ Fátt markvert gerðist í seinni hálfleiknum. „Mér fannst við stjórna honum án þess þó að skapa okkur nógu góð færi. Það vantaði herslumuninn. Við áttum einhverja möguleika en okkur vantaði meiri gæði til að klára þetta.“ Ásmundi fannst það sjást að það eru þrjár vikur síðan Breiðablik spilaði síðast. „Mér fannst það spila inn í. Fæturnir voru þungir, við vorum ryðgaðar og við þurfum að komast í takt aftur,“ sagði Ásmundur. En hvað var hann sáttastur með hjá sínu liði í dag? „Maður er alltaf sáttur með að svara og koma til baka. Ég er sáttur með vinnusemina og fullt af hlutum. En við vildum gera betur og þurftum að gera betur til að vinna í dag,“ sagði Ásmundur að endingu.
Uppgjörið: Georgía - Ísland 25-30 | Íslenska liðið spýtti í lófana og gerði nóg í Georgíu Handbolti
Uppgjörið: Georgía - Ísland 25-30 | Íslenska liðið spýtti í lófana og gerði nóg í Georgíu Handbolti