Íslenski boltinn

„Fæturnir voru þungir, við vorum ryðgaðar og þurfum að komast í takt aftur“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Blikar gætu misst toppsæti Bestu deildar kvenna til Valskvenna í dag.
Blikar gætu misst toppsæti Bestu deildar kvenna til Valskvenna í dag. vísir/anton

Ásmundur Arnarsson, þjálfari Breiðabliks, var ekki sáttur með hvernig liðið byrjaði leikinn gegn FH í Kaplakrika í dag. Honum lyktaði með 1-1 jafntefli.

„Við erum alltaf svekkt að vinna ekki. Við mætum í alla leiki til að ná í þrjú stig. Maður er aldrei sáttur með eitt stig en við getum sagt að þetta sé erfiður útivöllur og FH gott lið. Við virðum stigið,“ sagði Ásmundur við Vísi eftir leikinn.

„Við gerðum okkur þetta erfitt fyrir. Við gerðum það sem við ætluðum alls ekki að gera. Við vissum að FH-ingar byrja sterkt og við ætluðum að mæta því en í staðinn byrjuðum við hálf dofnar. Við vorum ekki góðar í byrjun, mikið um misheppnaðar sendingar og lengi að átta okkur á hlutunum. Það var ekki fyrr en við fengum á okkur mark sem við fórum almennilega í gang. Það er hægt að hrósa stelpunum fyrir að snúa til baka, svara og jafna fyrir hlé. Það var gríðarlega sterkt.“

Fátt markvert gerðist í seinni hálfleiknum. „Mér fannst við stjórna honum án þess þó að skapa okkur nógu góð færi. Það vantaði herslumuninn. Við áttum einhverja möguleika en okkur vantaði meiri gæði til að klára þetta.“

Ásmundi fannst það sjást að það eru þrjár vikur síðan Breiðablik spilaði síðast.

„Mér fannst það spila inn í. Fæturnir voru þungir, við vorum ryðgaðar og þurfum að komast í takt aftur,“ sagði Ásmundur.

En hvað var hann sáttastur með hjá sínu liði í dag?

„Maður er alltaf sáttur með að svara og koma til baka. Ég er sáttur með vinnusemina og fullt af hlutum. En við vildum gera betur og þurftum að gera betur til að vinna í dag,“ sagði Ásmundur að endingu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×