Innlent

Varar við við­skiptum við Öskju eftir miklar hrak­farir

Tómas Arnar Þorláksson skrifar
Daníel Andri Fredriksen, sölustjóri hjá Wodbúð og Miðherja ásamt bílnum sem hann átti.
Daníel Andri Fredriksen, sölustjóri hjá Wodbúð og Miðherja ásamt bílnum sem hann átti. AÐSEND

Maður sakar bílaumboðið Öskju um að hafa ætlað að svindla á sér eftir að framleiðslugalli kom upp í vél á Honda-bílnum hans eftir um 61 þúsund kílómetra akstur. Askja hefði átt að bæta tjónið en rukkaði hann upphaflega um fjórar milljónir til að laga bílinn. Hann sakar fyrirtækið um misbresti og siðlausa viðskiptahætti og varar aðra við því að stunda viðskipti við umboðið.

Daníel Andri Fredriksen, sölustjóri hjá Wodbúð og Miðherja, segir Bílgreinasamband Íslands, Félags íslenskra bifreiðareigenda og fleiri stofnanir hafa gjörsamlega brugðist sér í málinu en hann greinir frá þessu leiðindaatviki á Facebook-síðu sinni.

Tók það ekki í mál að láta valta yfir sig

Daníel segir að vélarljós hafi komið upp þann 4. nóvember á síðasta ári þegar hann var á um 90 kílómetra hraða sem geti verið stórhættulegt. Hann kom þá bílnum til Öskju, sem er með umboðið fyrir Honda á Íslandi. Nokkrum dögum síðar fékk hann símtal frá fyrirtækinu og var hann fullvissaður um að fyrirtækið myndi bæta þetta enda um framleiðslugalla að ræða. 

„Í miðju símtali við manneskjuna í þjónustuverinu hringir stjóri hjá verkstæðinu en hann tjáir mér að ég muni ekki fá þetta bætt því að þjónustusagan mín væri ekki „fullkomin“. Ég smurði bílinn átta sinnum á 61.000 km tímabili og fór með í þjónustuskoðun hjá Öskju,“ segir í Facebook færslunni.

Daníel var þá tjáð að kostnaðurinn við að gera við vélina væri hátt í fjórar milljónir sem hann þyrfti að standa straum af sjálfur, þrátt fyrir að um þekktan framleiðslugalla væri að ræða. Hann tekur fram að svipaðir bílar kosti um 2,3 til 3 milljónir í dag á bílasölu. 

„Þeir segja að það séu aðrir eigendur á þessum bílum sem hafa líka þurft að bera þennan kostnað. Ég tók það ekki í mál að láta ganga svona yfir mig og þurfa borga þessa upphæð til að fá bílinn minn bættan sem var sannarlega með framleiðslugalla.“

Margar vikur af tölvupóstum og margir mánuðir í bið

Hann segist hafa átt í stöðugum tölvupóstasamskiptum við Öskju og einnig Honda Europe og á endanum eftir margar vikur var fallist á að hann myndi fá nýja vél en þyrfti samt að greiða 400 þúsund krónur fyrir. Vélin var ekki til á lager og átti hann að bíða fram í janúar eftir henni. Vélin skilaði sér loks í maí, næstum sjö mánuðum frá því að gallinn kom upp.

„Askja bauð mér svo að fá heddið á kostnaðarverði eða 250.000 krónur. Þið skuluð taka eftir því að ég átti greinilega upprunalega að borga heddið með álagningu fyrst um sinn. Það tókst svo á endanum eftir marga tölvupósta til Honda Europe og Öskju að fá heddið bætt mér að kostnaðarlausu enda gat ekki annað komið til greina því vélin var gölluð.“

Daníel biðlar til annarra sem eiga svipaða reynslu að koma fram og þá sérstaklega ef þeir hafa ekki fengið framleiðslugallann bættan sér að kostnaðarlausu. Hann segist hafa fundið fjölmargar dæmisögur erlendis frá um svipuð mál í samtali við Vísi.

Réttindi neytenda hlunnfarin í kaupsamning

Þar með eru hrakningar Daníels þó ekki fulltaldar en hann bað Öskju margoft um bílaleigubíl á meðan hann var bíllaus í 186 daga án árangurs. Hann vísar til neytendalaga máli sínu til stuðnings.

„Skv. neytendalögum skal ný afhending fara fram án kostnaðar og verulegs óhagræðis fyrir neytanda, innan hæfilegs tíma og þannig að neytandinn fái bætt útgjöld sín úr hendi seljanda. Ef úrbætur eða ný afhending seljanda hafa það í för með sér að neytandi getur ekki notað söluhlut í meira en eina viku getur neytandi krafist þess að fá sambærilegan hlut til umráða á kostnað seljanda.“

Hann harmar það að hafa neyðst að eyða hálfu ári af lífi sínu í að berjast fyrir því að fá gallaðan hlut bættan og í áhyggjur yfir því hvernig hann ætti að komast á milli staða.

„Askja sögðu við minni beiðni um bílaleigubíl að þeir þyrftu ekki að lána mér bílaleigubíl vegna þess að þeir eru ekki upprunalegi seljandi bílsins. Ég keypti bílinn hjá Askja - notaðir bílar í umboðssölu en þjónustaði hann svo hjá þeim enda keyptu þeir umboðið af Bernhard EHF. árið 2019 eða rétt áður en ég keypti þennan bíl. 

Þeir sögðust ekki hafa tekið yfir ábyrgðir og skyldur gagnvart viðskiptavinum skv. neytendalögum. Þeir gerðu s.s. sérstakan kaupsamning til þess að skilja það allt eftir hjá Bernhard ehf. sem er ekki einu sinni á bílamarkaði í dag.“

Vafasöm tengsl milli fyrirtækisins og BGS

Hann spyr hvers konar fordæmi sé verið að setja á bílamarkaði þegar Askja geti keypt umboð af öðru fyrirtæki án þess að taka yfir ábyrgðir gagnvart viðskiptavinum.

Daníel hefur verið í samskiptum við Neytendasamtök, Neytendastofu, kærunefnd vöru- og þjónustukaupa, Samkeppniseftirlitið, Félag íslenskra bifreiðamanna en endaði á því að senda inn kröfu um úrskurð hjá Bílgreinasambandinu (BGS) þann 4. apríl. 173 dögum seinna hefur ekkert svar borist. 

„Ég hef ítrekað ýtt á eftir þessum úrskurði og engin svör fengið. Það þýðir að það séu 325 dagar síðan ég skilaði bílnum inn til Öskju og engin úrskurður komin varðandi þetta mál. FÍB, BGS, Neytendasamtök, neytendastofa og samkeppniseftirlitið hafa öll brugðist mér sem neytenda.

Það stendur á heimasíðu BGS.is að Askja sé samstarfsaðili BGS, ekki veit ég hvað það á að þýða en mér finnst eins og nefnd um úrskurði bílamála ætti að vera alveg óháð bílaumboðunum. Þess vegna finnst mér einnig einkennilegt að Askja sé að auglýsa á BGS heimasíðunni.“

Seldi bílinn til að stunda aldrei framar viðskipti við Öskju

Hann varar fólk við viðskiptum við Öskju og segir þá vita nákvæmlega hvað þeir séu að gera með kaupum sínum á Honda umboðinu af Bernhard ehf. 

„Það er gríðarlegt tjón að leigja sér bíl á eigin kostnað í hálft ár og þurfa svo að selja bílinn sinn undir markaðsvirði til þess að sleppa því að nokkurn tímann aftur stunda viðskipti við þetta fyrirtæki. Það er ekki hægt að sleppa því að ítreka erfiðleikana sem voru á andlegu hliðina að þurfa berjast fyrir því að eitthvað sé gert, að þurfa rökræða og rífast um það að fá rándýran hlut sem var gallaður, bættan.

Það sem við getum gert þegar fyrirtæki bregðast okkur, er að sýna það í krafti fjöldans að við líðum ekki svona lélega þjónustu og siðlausa viðskiptahætti. Fólk á ekki að þurfa berjast við fyrirtæki til að fá hluti bætta.“

„Stofnuðu mér í stórhættu“

Hann segist hugsa til þeirra sem urðu fyrir sömu meðferð og höfðu það ekki í sér að láta slag standa heldur borguðu brúsann eins og Askja fór fram á upphaflega gegn honum.

„Afhverju er FÍB ekki að tala um þetta á opinberum vettvangi? Þeir vita nákvæmlega um hvað málið snýst og þeir vita líka að það eru miklu fleiri en ég að lenda í nákvæmlega sama dæmi.

Ef þú þekkir einhvern sem á Honda Civic 2017-2019 þá gæti þetta átt við um þá bíla en minn bíll var 2018 módel en ég veit til þess að þetta eru u.þ.b ártölin sem vélin gæti verið ónýt upp úr þurru.

Fyrir utan fjárhagslegt tjón þá er mér ofboðið að Askja vissi af þessum galla áður en þetta gerðist við minn bíl og stofnuðu mér í stórhættu á því að segja mér ekki frá því enda var ég að keyra á þjóðveginum þegar vélin dó.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×