Handbolti

Það hlýtur eitthvað gott að gerast hjá mér á lífsleiðinni

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Tímabilið er búið hjá Þorgerði Önnu Atladóttur.
Tímabilið er búið hjá Þorgerði Önnu Atladóttur. Vísir/Anton
„Ég hef oft haft það betra en núna. Ég þurfti að klípa mig nokkrum sinnum því ég hreinlega trúði því ekki að þetta væri að gerast,“ segir handboltakonan Þorgerður Anna Atladóttir en óheppnin hefur elt hana á röndum í að verða tæp tvö ár.

Það eru ekki nema rétt rúmar tvær vikur síðan hún sneri aftur út á handboltavöllinn eftir fimmtán mánaða fjarveru. Þá hafði hún verið að glíma við afar erfið axlarmeiðsli. Nú lenti hún í því að slíta krossband í hné og tímabilið er því búið hjá henni.

„Þetta gerðist á æfingu. Við vorum að spila og ég ætlaði í fintu og þá gaf hnéð sig. Það fór ekkert á milli mála hvað hafði gerst. Ég sat eftir á gólfinu og öskraði því ég vissi hvað hafði gerst. Ég sá strax fyrir mér endurhæfinguna en það eru ekki liðnir tveir mánuðir síðan ég var þar síðast. Mér varð eiginlega óglatt að hugsa til þess að fara að vera þar aftur fimm tíma á dag,“ segir Þorgerður Anna en fremra krossbandið fór hjá henni.

„Ég fer í aðgerð á mánudag og svo tekur við hvíld áður en ég fer í endurhæfingu. Ég kannast því miður aðeins of vel við það. Í besta falli verð ég farin að spila handbolta aftur í október eða nóvember.“

Þorgerður Anna var á réttri leið og búin að taka þátt í tveim Meistaradeildarleikjum með hinu geysisterka þýska liði HC Leipzig áður en ógæfan dundi yfir á ný.

„Það hlýtur eitthvað gott að gerast hjá mér á lífsleiðinni. Ég hlýt að fá þetta til baka á endanum eftir allt þetta mótlæti. Ég var búin að fá smjörþefinn af því sem beið mín og þetta er hreint ótrúlega svekkjandi.“

Þessi magnaða handboltakona hefur þó tímann fyrir sér enda aðeins 22 ára gömul.

„Það kemur ekkert annað til greina en að taka á þessu. Ég neita að gefast upp. Ef ég væri 32 ára þá hefði ég örugglega bara hætt. Ég hef enn háleit markmið að standa mig vel með einu besta liði heims og ná þar árangri. Það er erfitt að hugsa jákvætt en ég hef fengið góðan stuðning frá fólkinu mínu sem og fólkinu hér úti,“ segir Þorgerður Anna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×