Handbolti

Frábær byrjun strákanna í Póllandi

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ómar Ingi átti frábæran leik gegn Póllandi.
Ómar Ingi átti frábæran leik gegn Póllandi. vísir/vilhelm
Íslenska U-20 ára landsliðið í handbolta vann öruggan sigur á Póllandi, 26-31, í fyrsta leik sínum í undankeppni EM í dag. Leikið var í Kielce í Póllandi.

Íslenska liðið var miklu sterkari aðilinn allt frá upphafsflautinu. Íslensku strákarnir komust í 0-3 en þá tóku Pólverjar við sér og minnkuðu muninn í 4-5.

Ísland herti þá tökin, skoraði átta mörk gegn þremur og komst sex mörkum yfir, 7-13. Staðan í hálfleik var 11-16.

Íslensku strákarnir hófu seinni hálfleikinn af miklum krafti og gerðu þá í raun út um leikinn. 5-1 vörn liðsins var öflug og fyrir vikið fékk Ísland fullt af hraðaupphlaupum.

Um miðjan seinni hálfleik var munurinn orðinn 12 mörk, 14-26, og úrslitin svo gott sem ráðin.

Minni spámenn fengu að spreyta sig í íslenska liðinu á lokakaflanum þar sem Pólverjar náðu að laga stöðuna. Það breytti þó engu um niðurstöðuna. Lokatölur 26-31, Íslandi í vil.

Óðinn Þór Ríkharðsson og Ómar Ingi Magnússon skoruðu sex mörk hvor fyrir íslenska liðið en sá síðarnefndi átti auk þess fjölda stoðsendinga á félaga sína. Egill Magnússon kom næstur með fimm mörk og Elvar Örn Jónsson skoraði fjögur.

Ísland er með tvö stig í riðlinum, líkt og Ítalía sem vann 30-25 sigur á Búlgaríu fyrr í dag.

Íslensku strákarnir mæta Búlgörum á morgun og ljúka svo leik gegn Ítölum á sunnudaginn. Tvö efstu liðin í riðlinum komast í lokakeppnina í Danmörku í sumar.

Mörk Íslands:

Óðinn Þór Ríkharðsson 6, Ómar Ingi Magnússon 6, Egill Magnússon 5, Elvar Örn Jónsson 4, Sturla Magnússon 3, Birkir Benediktsson 2, Hákon Daði Styrmisson 2, Sveinn Jóhannsson 2, Leonharð Harðarson 1.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×