Umfjöllun og viðtöl: FH - Tatran Presov 26-23 | FH-ingar úr leik þrátt fyrir frábæra frammistöðu

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Leikmenn Tatran Presov fagna í leikslok.
Leikmenn Tatran Presov fagna í leikslok. vísir/anton bjarni
FH er úr leik í EHF-bikarnum í handbolta þrátt fyrir 26-23 sigur á Tatran Presov í Kaplakrika í dag. Slóvakarnir unnu fyrri leikinn á sínum heimavelli, 24-21, og fóru áfram á fleiri mörkum skoruðum á útivelli.

FH byrjaði leikinn vel en fljótlega náði Tatran Presov yfirhöndinni og leiddi með tveimur mörkum í hálfleik, 11-13.

Gestirnir skoruðu þrjú af fyrstu fjórum mörkum seinni hálfleiks og náðu fjögurra marka forskoti, 12-16.

FH-ingar svöruðu með frábærum 7-0 kafla og náðu forystunni, 19-16. Lokamínúturnar voru svo gríðarlega spennandi.

FH fékk tækifæri til að komast í 27-23, sem hefði komið liðinu áfram, en Mario Cvitkovic varði skot Óðins Þór Ríkharðssonar úr hægra horninu. Tatran Presov hélt svo boltanum út leikinn og fagnaði sæti í riðlakeppni EHF-bikarsins þrátt fyrir þriggja marka tap.

Gísli Þorgeir Kristjánsson spilaði vel í seinni hálfleik.vísir/anton bjarni
Af hverju vann FH?

FH-ingar spiluðu frábærlega í seinni hálfleik sem þeir unnu 15-10. Varnarleikurinn var mun þéttari í seinni hálfleiknum en í þeim fyrri og Ágúst Elí Björgvinsson hélt uppteknum hætti í markinu.

Sóknarleikurinn gekk einnig betur og heildarbragurinn á FH-liðinu var góður. Heimamenn áttu alla möguleika á að vinna fjögurra marka sigurinn sem þeir þurftu en Cvitkovic reyndist þeim erfiður og furðulegar ákvarðanir króatíska dómaraparsins hjálpuðu heldur ekki til.

Hverjir stóðu upp úr?

Ágúst Elí átti skínandi góðan leik í FH-markinu og varði 16 skot (41%), þar af tvö víti. Miðað við frammistöðu hans í þessum leik, á móti þetta sterkum andstæðingi, og heilt yfir í vetur verður erfitt fyrir Geir Sveinsson að horfa framhjá honum þegar hann velur íslenska hópinn sem fer á EM í Króatíu í byrjun næsta árs.

Ísak Rafnsson var sterkur á báðum endum vallarins og Ásbjörn Friðriksson átti flottan leik. 

Dominik Krok var langbesti útileikmaður Tatran Presov og þá vörðu markverðirnir vel.

Hvað gekk illa?

Tatran Presov spilaði skynsamlega í leiknum í dag; langar og leiðinlegar sóknir og komust upp með það. FH gekk á köflum erfiðlega að klára varnirnar sínar í fyrri hálfleik en það lagaðist mikið í þeim seinni.

FH-ingar fóru mjög illa með dauðafærin sín, sérstaklega í byrjun leiks þegar þeir hefðu getað náð góðu forskoti. Óðinn skoraði sex mörk eins og áður sagði en nýtti færin sín ekki nógu vel.

Dómaraparið frá Króatíu átti ekki góðan dag og þá sérstaklega undir lokin. Mark Michals Kasal sem þeir dæmdu gilt í upphafi seinni hálfleik taldi mikið þegar uppi var staðið.

Hvað gerist næst?

Tatran Presov er komið í riðlakeppni EHF-bikarsins þar sem liðið mætir Bjerringbro-Silkeborg, Minsk og Magdeburg.

FH fær núna kærkomna hvíld en næsti leikur liðsins er ekki fyrr en mánudaginn 11. desember. Þá sækir FH Aftureldingu heim.

Halldór ræðir við sína menn,vísir/anton bjarni
Halldór: Það sem drepur okkur ekki hlýtur að styrkja okkur

Halldór Sigfússon, þjálfari FH, var bæði stoltur og svekktur eftir þriggja marka sigur liðsins, 26-23, á Tatran Presov. Sigurinn var frábær en dugði FH-ingum ekki til að komast áfram í riðlakeppni EHF-bikarsins.

„Ég er gríðarlega glaður með mína menn. Þeir voru geggjaðir. En ég er gríðarlega svekktur með úrslitin. Þetta fellur á einu marki, í raun á markinu sem var flautað af okkur úti í Slóvakíu,“ sagði Halldór og vísaði til marksins sem dæmt var af Óðni Þór Ríkharðssyni í fyrri leiknum fyrir viku.

„Það þarf að skoða síðustu fimm mínúturnar í þessum leik. Hvernig geturðu verið 45 sekúndur í síðustu sókninni þegar það er verið að spila framliggjandi vörn og það er ekki eitt fríkast dæmt. Ég átta mig ekki á því. Þetta er það sem er að eyðileggja fyrir okkur. Ég ætla ekki að gráta endalaust en það er ýmislegt búið að ganga á hjá okkur í þessari Evrópukeppni. En það sem drepur okkur ekki hlýtur að styrkja okkur.“

FH-ingar lentu 12-16 undir í upphafi seinni hálfleiks. Þá fóru þeir í gang og komu sér í lykilstöðu með frábærum 7-0 kafla.

„Mér fannst við ekki alveg nógu ákveðnir í byrjun seinni hálfleiks. Svo fáum við sterka vörn og Ágúst [Elí Björgvinsson] varði vel á þessum kafla. Að ná 7-0 á móti þessu liði er gríðarlega sterkt. Við settum pressu á þá sem átti að duga,“ sagði Halldór.

„Þegar 15 sekúndur voru eftir af leiknum átti að flauta boltann af þeim þegar hann stóð með hann í höndunum í 4-5 sekúndur og hafði enga möguleika til að senda. En ég er gríðarlega stoltur af strákunum og að vinna þetta lið með þremur mörkum, en jafnframt svakalega svekktur.“

Ásbjörn reynir skot að marki Tatran Presov.vísir/anton bjarni
Ásbjörn: Finnst við vera með betra lið

Ásbjörn Friðriksson, fyrirliði FH, var að vonum svekktur eftir leikinn í dag.

„Ég er virkilega svekktur. Mér finnst við betra lið alla daga vikunnar. Það sýnir hversu góðir við erum,“ sagði Ásbjörn.

Dómgæslan í leikjunum tveimur gegn Tatran Presov, sérstaklega á ögurstundu, var ekki eins og best verður á kosið.

„Þetta er eins svekkjandi og það verður. Það er hundleiðinlegt að þetta skuli enda svona. Í báðum leikjunum fórum við með færi en þeir eru bara með góða markverði. Við getum ekki reiknað með að spila á móti svona góðu liði án þess að markverðirnir verji eitthvað,“ sagði Ásbjörn.

„Í lokasókninni var tekið af okkur löglegt mark sem Gísli [Þorgeir Kristjánsson] skoraði. Það var margt skrítið í þessu.“

Þrátt fyrir svekkelsið segir Ásbjörn að FH-ingar geti verið stoltir af frammistöðu sinni í EHF-bikarnum.

„Þetta sýnir að íslenska deildin er mun sterkari en fólk heldur. Við vorum töluvert betri en liðin sem við slógum út og þetta sýnir hvað við erum komnir langt,“ sagði Ásbjörn að endingu.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira