Innlent

Lág laun leikskólakennara

Daglaun leikskólakennara eru um 30 þúsund krónum lægri en grunnskólakennara á mánuði. Leikskólakennarar setja fram kröfur um sambærileg laun fyrir sambærilega menntun í kjaraviðræðum við ríkið. Björg Bjarnadóttir, formaður Félags leikskólakennara, segir niðurstöðu kjaraviðræðna kennara verða nýttar til viðmiðunar í viðræðum leikskólakennara við ríkið. "Leikskólakennarar eru töluvert fyrir neðan kennara í launum. Við höfum ekki rannsakað af hverju svo er og sennilega eru margar skýringar. Ætli ástæðan sé ekki fyrst og fremst viðhorfin í samfélaginu. Eftir því sem fólkið er yngra er það minna merkilegra," segir Björg. "Okkar mál hanga á deilu grunnskólakennara og hvernig henni framvindur. Ekkert hefur verið rætt lengra inn í framtíðina og ekki er tímabært að segja til um hvort komi til verkfalls." Karl Björnsson, formaður samningsnefdnar sveitarfélaganna í viðræðum við leikskólakennara, segir viðræðurnar við leikskólakennara á grunnstigi: "Ég geri mér grein fyrir því að allir opinberir starfsmenn sem og starfsmenn á opinberum markaði munu horfa til niðustaðna kjarasamninga kennara," segir Karl. Kjarasamningar leikskólakennara rann út í ágústlok. Björg segir viðræðuáætlun við sveitarfélögin ná út september. Í framhaldinu verði skoðað hvort hún verði framlengd.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×