Innlent

Kennarar flykkjast til útlanda

Fjölmargir grunnskólakennarar eru nú staddir erlendis eða eru á leið utan á meðan verkfalli þeirra stendur. Engir samninganefndafundir verða haldnir fyrr en seint í næstu viku og því er auðvelt að skipuleggja slíkar ferðir. Vestfirskur grunnskólakennari sagði í samtali við blaðið að þegar ljóst var að ekkert yrði fundað fyrr en á fimmtudag þá hefði hann ákveðið að drífa sig í vikuferð með konu sinni til Barcelona. "Það er betra að slappa af í sólinni á Spáni en að hírast í nepjunni vestur á fjörðum." Að sögn mannsins var talsvert um fólk í vélinni sem keypt hafði miða með skömmum fyrirvara og taldi hann að margir foreldrar sem ættu inni sumarfrí en væru í vandræðum með börn sín hefðu einnig séð sér leik á borði. Eiríkur Jónsson, formaður KÍ, sagðist ánægður með að félagsmenn hans nýttu verkfallið á þennan hátt. Nóg væri eftir af fólki hér heima til að halda uppi baráttunni. Helstu flugfélög og ferðaskrifstofur hafa ekki merkt aukna sölu á ferðum til kennara enda er hvorki spurt um stöðu né stétt þegar farmiði er keyptur.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×