Tíðindalaus stefnuræða 6. október 2004 00:01 Varla er unnt að segja að nokkuð hafi komið á óvart í fyrstu stefnuræðunni sem Halldór Ásgrímsson flutti sem forsætisráðherra á Alþingi í gærkvöldi. Málflutningur hans var hófsamur og efnislegur en fyrirsjáanlegur í öllum aðalatriðum og hefur áreiðanlega ekki sent neina sérstaka hrifningaröldu um þjóðfélagið.Eins og Halldór tók skýrt fram í upphafi ræðunnar verða engar breytingar á meginmarkmiðum ríkisstjórnarinnar þótt skipt hafi verið um manninn í brúnni. Tilkynning Halldórs um að þess sé ekki að vænta að Síminn verði seldur fyrr en á fyrri hluta næsta árs kom ekki á óvart. Hinn nýi formaður einkavæðingarnefndar hafði þegar gefið þetta í skyn í fjölmiðlum. Rökin fyrir seinkuninni hafa hins vegar ekki komið skýrt fram. Því miður er ástæða til að hafa áhyggjur af því að forystumenn stjórnarflokkanna séu að reyna að hafa áhrif á það hverjir eignast þetta stóra fyrirtæki. Sporin hræða í því efni. Athyglisvert er að einu ummæli forsætisráðherra um fjölmiðlamálið eru þau að unnið verði að lagasetningu um eignarhald á fjölmiðlum í menntamálaráðuneytinu. Greinilegt er að Halldór ætlar sér ekki að hafa forystu í málinu eins og fyrirrennari hans. Það er út af fyrir sig góðs viti. Engar tímasetningar eru nefndar í sambandi við þessa vinnu. Verður að telja ólíklegt að stjórnarflokkarnir séu svo óraunsæir að þeir reyni að endurtaka í vetur axarsköft sín frá því í vor og sumar. Það er rétt hjá forsætisráðherra að málefni öryrkja krefjast sérstakrar athugunar sem fram þarf að fara hvað sem líður ágreiningi ríkisstjórnarinnar og Öryrkjabandalagsins um fjárframlög til öryrkja. Þróunin í þessum málaflokki hér á landi virðist á skjön við það sem er að gerast erlendis og kallar á vandaða úttekt og greiningu eins og nú mun í undirbúningi. Forsætisráðherra boðaði samstarf allra flokka um endurskoðun stjórnarskrárinnar. Mikilvægt er að þetta samstarf verði ekki orðin tóm heldur verði við það miðað að ná þverpólitískri samstöðu um breytingar sem gera þarf til að stjórnarskráin sé í samræmi við veruleika nútímans og þær stjórnskipunarhefðir sem skapast hafa hér á landi. Nauðsynlegt er að í tengslum við endurskoðunina verði að frumkvæði stjórnvalda efnt til víðtækrar þjóðfélagslegrar umræðu um stjórnarskrána og stjórnskipunina. Þetta er mál sem Alþingi á ekki að afgreiða í einangrun. Forsætisráðherra var fáorður um utanríkismál. Hann minntist ekki á styrjöldina í Írak. Í ljós hefur komið að þær upplýsingar sem ríkisstjórnin byggði á þegar hún ákvað að styðja innrásina í fyrravor voru í veigamiklum atriðum rangar. Ástæða hefði verið til að fara yfir það mál allt og skýra fyrir þingi og þjóð hvernig það er vaxið. Miðað við áhuga forsætisráðherra á málefnum Evrópusambandsins meðan hann var utanríkisráðherra kom á óvart að hann nefndi þetta óskabarn sitt ekki einu orði. Fyrir nokkrum mánuðum hafði hann áhyggjur af því að samningurinn um evrópska efnahagssvæðið væri að ganga sér til húðar en nú virðast þær gleymdar og grafnar. Halldór Ásgrímsson hefur staðið fyrir og stutt mörg þjóðþrifamál á löngum stjórnmálaferli. Af stefnuræðunni að dæma mun hann hins vegar ekki marka nein spor í hlutverki forsætisráðherra Íslands. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Fastir pennar Guðmundur Magnússon Mest lesið Er píparinn þinn skattsvikari? Kristinn Karl Brynjarsson Skoðun Kæra unga móðir Jóna Þórey Pétursdóttir Skoðun Kosningar og ,ehf gatið‘ Róbert Farestveit Skoðun Verði þitt val, svo á jörðu sem á himni Halldóra Lillý Jóhannsdóttir Skoðun Grípum tækifærin og sköpum bjartari framtíð Ísak Leon Júlíusson Skoðun Rekin út fyrir að vera kennari Álfhildur Leifsdóttir Skoðun Halldór 9.11.2024 Halldór Frelsi til að búa þar sem þú vilt Sæunn Gísladóttir Skoðun Það sem má alls ekki tala um... Ragnar Þór Ingólfsson Skoðun Öryggis annarra vegna… Ingunn Björnsdóttir Skoðun
Varla er unnt að segja að nokkuð hafi komið á óvart í fyrstu stefnuræðunni sem Halldór Ásgrímsson flutti sem forsætisráðherra á Alþingi í gærkvöldi. Málflutningur hans var hófsamur og efnislegur en fyrirsjáanlegur í öllum aðalatriðum og hefur áreiðanlega ekki sent neina sérstaka hrifningaröldu um þjóðfélagið.Eins og Halldór tók skýrt fram í upphafi ræðunnar verða engar breytingar á meginmarkmiðum ríkisstjórnarinnar þótt skipt hafi verið um manninn í brúnni. Tilkynning Halldórs um að þess sé ekki að vænta að Síminn verði seldur fyrr en á fyrri hluta næsta árs kom ekki á óvart. Hinn nýi formaður einkavæðingarnefndar hafði þegar gefið þetta í skyn í fjölmiðlum. Rökin fyrir seinkuninni hafa hins vegar ekki komið skýrt fram. Því miður er ástæða til að hafa áhyggjur af því að forystumenn stjórnarflokkanna séu að reyna að hafa áhrif á það hverjir eignast þetta stóra fyrirtæki. Sporin hræða í því efni. Athyglisvert er að einu ummæli forsætisráðherra um fjölmiðlamálið eru þau að unnið verði að lagasetningu um eignarhald á fjölmiðlum í menntamálaráðuneytinu. Greinilegt er að Halldór ætlar sér ekki að hafa forystu í málinu eins og fyrirrennari hans. Það er út af fyrir sig góðs viti. Engar tímasetningar eru nefndar í sambandi við þessa vinnu. Verður að telja ólíklegt að stjórnarflokkarnir séu svo óraunsæir að þeir reyni að endurtaka í vetur axarsköft sín frá því í vor og sumar. Það er rétt hjá forsætisráðherra að málefni öryrkja krefjast sérstakrar athugunar sem fram þarf að fara hvað sem líður ágreiningi ríkisstjórnarinnar og Öryrkjabandalagsins um fjárframlög til öryrkja. Þróunin í þessum málaflokki hér á landi virðist á skjön við það sem er að gerast erlendis og kallar á vandaða úttekt og greiningu eins og nú mun í undirbúningi. Forsætisráðherra boðaði samstarf allra flokka um endurskoðun stjórnarskrárinnar. Mikilvægt er að þetta samstarf verði ekki orðin tóm heldur verði við það miðað að ná þverpólitískri samstöðu um breytingar sem gera þarf til að stjórnarskráin sé í samræmi við veruleika nútímans og þær stjórnskipunarhefðir sem skapast hafa hér á landi. Nauðsynlegt er að í tengslum við endurskoðunina verði að frumkvæði stjórnvalda efnt til víðtækrar þjóðfélagslegrar umræðu um stjórnarskrána og stjórnskipunina. Þetta er mál sem Alþingi á ekki að afgreiða í einangrun. Forsætisráðherra var fáorður um utanríkismál. Hann minntist ekki á styrjöldina í Írak. Í ljós hefur komið að þær upplýsingar sem ríkisstjórnin byggði á þegar hún ákvað að styðja innrásina í fyrravor voru í veigamiklum atriðum rangar. Ástæða hefði verið til að fara yfir það mál allt og skýra fyrir þingi og þjóð hvernig það er vaxið. Miðað við áhuga forsætisráðherra á málefnum Evrópusambandsins meðan hann var utanríkisráðherra kom á óvart að hann nefndi þetta óskabarn sitt ekki einu orði. Fyrir nokkrum mánuðum hafði hann áhyggjur af því að samningurinn um evrópska efnahagssvæðið væri að ganga sér til húðar en nú virðast þær gleymdar og grafnar. Halldór Ásgrímsson hefur staðið fyrir og stutt mörg þjóðþrifamál á löngum stjórnmálaferli. Af stefnuræðunni að dæma mun hann hins vegar ekki marka nein spor í hlutverki forsætisráðherra Íslands.