Innlent

Vill fá Steinar heim sem fyrst

"Það var hræðilegt að heyra þessar fréttir. Mér finnst ég svo lítils megnug að geta ekkert gert til að hjálpa honum," segir Soffía Hrönn Jakobsdóttir, eiginkona Steinars Arnar Magnússonar, annars íslensku friðargæsluliðanna sem særðust í sprengjuárás í Kabúl í Afganistan í gær. Soffía talaði við Steinar Örn í gær eftir að hann kom úr aðgerð en hann fékk sprengjubrot bæði í hendi og fót. Hún segir hann hafa borið sig vel. Mikil mildi sé að ekki hafi farið verr eins og ef brotin hefðu lent í höfði hans eða kviði. Steinar fór til Kabúl í ágúst og átti að koma heim í byrjun desember en Soffía segist ekki vita hvort þeir muni koma heim fyrr vegna árásanna. "Auðvitað vil ég fá hann heim sem fyrst," segir Soffía og játar því að ógnvæglegt sé að hafa hann áfram í Kabúl. Hún segist auðvitað hafa vitað að einhver hætta væri yfirvofandi á meðan hann væri í Afganistan en hún hafi samt alltaf hugsað sem svo að ekkert myndi koma fyrir. Þá segir hún sárt að geta ekki heimsótt Steinar á spítalann, þau séu vön að styðja hvort annað og því sé skrítið að hafa hann ekki nálægan á stundu sem þessari.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×