Lífið

Skransala með sál

"Ég sel hluti sem fólk hefur gefið mér og það eru aldeilis margir sem hafa styrkt mig. Maðurinn minn, hann Viggó Guðmundsson, vill til dæmis losa sig við dót sem hann á svo börnin hans þurfi ekki að rífast um það eftir hans tíma," segir Guðrún og skellihlær enda lífsglöð og hress. "Verðið er afar sanngjarnt, allt frá tíu krónum og upp úr. Síðan er alltaf hægt að prútta því ég veit að ef ég fer á svona sölur þá reyni ég alltaf að prútta. Maður á alls ekki að vera feiminn við það svo lengi sem allir eru ánægðir. Ég er með lampa og húsgögn og eiginlega allt sem hægt er að láta sér detta í hug og það er alltaf eitthvað nýtt að detta inn," segir Guðrún en stemmingin í skransölunni er engu lík. Í öðrum hluta húsnæðisins er salan en í hinum er Guðrún búin að koma sér upp vinnuaðstöðu þar sem fólk getur litið inn og skoðað húfurnar, peysurnar og pilsin sem hún hefur verið að hanna. Guðrún lenti í alvarlegu bílslysi í nóvember árið 2002 og hefur síðan verið öryrki. "Ég gat eiginlega ekki ráðið mig í vinnu hjá öðrum því ég þarf alltaf að hvíla mig eitthvað á hverjum degi. Þá voru nú góð ráð dýr - eða ódýr og þá datt mér í hug að byrja með þessa skransölu. Ég er algjör jarðýta og ég get hreinlega ekki setið aðgerðarlaus. Ég ætlaði að opna gallerí í þessu húsnæði því ég er að hanna húfur og skúlptúra en veit ekki hvenær verður úr því. Húfurnar mínar hafa til dæmis verið seldar til Kanada og voru mjög vinsælar á Víkingahátíðinni í Hafnarfirði. Mig langar líka að virkja listamenn sem eru sjálflærðir eins og ég og eru að gera góða hluti úti um allan bæ. Þangað til það gerist prófa ég skransöluna," segir Guðrún en hún opnaði söluna um miðjan mánuðinn. "Ég finn að þetta er að rúlla af stað. Fólk tekur vel í þessa hugmynd og það er mikið hringt í mig og spurt um einstaka hluti. Ef þetta verður mikið stuð þá held ég áfram í nokkrar helgar þó ég sé ekkert búin að ákveða hvað ég ætli að hafa söluna lengi opna. Það verður bara að koma í ljós."
Valli
Valli





Fleiri fréttir

Sjá meira


×