Hefur Bush rétt fyrir sér? 27. febrúar 2005 00:01 Gæti verið að Bush hafi rétt fyrir sér? Þessu veltir Claus Christian Malzhan, greinarhöfundur hjá þýska tímaritinu Der Spiegel, fyrir sér í grein sem hefur vakið mikla athygli bæði austan hafs og vestan. Malzhan nefnir heimsókn Ronalds Reagans til Berlínar 1987, en þá var hann með eindæmum óvinsæll í Þýskalandi. Reagan tók sér stöðu við Berlínarmúrinn og sagði stundarhátt: "Herra Gorbatsjov, rífðu niður þennan vegg!" Fyrir þetta var mikið grín gert að Reagan í þýsku pressunni - ræðan hans var vissulega full af hvimleiðum klisjum. Tveimur árum síðar féll Múrinn. Engan þýskan stjórnmálamann hafði órað fyrir því. Þeir höfðu hæðst að Reagan og talið hann veruleikafirrtan draumóramann, líklega bjána. Svona væri ekki alvöru pólitík. Greinarhöfundur spyr hvort heimsókn Bush til Þýskalands í síðustu viku sé að einhverju leyti svipuð. Hann ræðir hversu Evrópubúar og Bandaríkjamenn séu ólíkir, veltir fyrir sér hvort Evrópumenn nú eins og þá geti ekki ímyndað sér að heimurinn breytist - þeirra viðmið séu þjóðfélög gærdagsins. Kannski séu Bandaríkjamenn hæfari til að sjá fyrir breytingar, enda búi þeir í miklu hreyfanlegra samfélagi. Kannski, segir Malzhan, fá íbúar Sýrlands, Írans og Jórdaníu þá flugu í höfuðið að losa sig við ríkisstjórnir sem kúga þegna sína, svona líkt og íbúar Austur-Þýskalands. Það hafi til dæmis ríkt þögn hjá kjaftastéttunum í Evrópu í fáeina daga eftir kosningarnar í Írak; rétt eins Þýskalandssérfræðingar þögnuðu 9. nóvember 1989 þegar Múrinn féll. Hér má lesa grein Malzhans í enskri útgáfu. --- --- --- Þeir sem vilja byggja samgöngumiðstöð í Vatnsmýrinni hafa örugglega aldrei ferðast með strætó. Fyrir fólk sem þekkir strætisvagnana hljómar samgöngumiðstöðin eins og geðveiki. Þetta verður enn einn útúrdúrinn í alltof gisnu leiðakerfi. Ég bendi til dæmis á að ef maður vill fara úr Vesturbænum upp á Stöð 2 á Lynghálsi með strætisvagni er Loftleiðahótelið einn af fjölda útúrdúra á leiðinni. Þar kemur einstöku sinnum útlendingur um borð í vagninn. Ferðalagið tekur yfirleitt ekki minna en 45 mínútur. Í Vatnsmýrinni er nákvæmlega enginn sem þarf að taka strætó. Fólk fer ekki með strætó út á flugvöll og tekur svo vélina til Akureyrar. Þeir sem koma úr flugvélum fara ekki upp í strætó. Í rauninni er líka út í hött að hafa rútustöð þarna líka - það eru nákvæmlega engin tengsl milli rútuferða og flugsins. Um flugvöllinn fara sirkabát 1000 manns á dag, líklegt er að sú tala dragist saman eftir að framkvæmdunum á Kárahnjúkum lýkur. Það er óskiljanlegt að þurfi að byggja miðstöð fyrir meira en milljarð fyrir þessar fáu hræður og sveigja svo samgöngukerfið í borginni að því. Þetta er ekkert annað en absúrdismi. Eini tilgangurinn með samgöngumiðstöðinni er að festa flugvöllinn í sessi. Og í þessu makkar borgarstjórnin með. --- --- --- Umræðan um Evrópumálin á flokksþingi Framsóknar var að sönnu nokkuð óvænt. Maður hefur eiginlega ekkert heyrt talað um Evrópu í mörg ár; það er líkt og engum hafi þótt vera neinn hiti í málinu í langan tíma. Hvernig stendur þá á þessu? Helgi Hjörvar var í þættinum hjá mér í dag og kastaði því fram að þetta væru spunalækningar á háu stigi - það væri verið að tala um Evrópu til að framsóknarmenn færu ekki að tala um einhver önnur mál, miklu óþægilegri. Þannig væri Evrópuumræðan eins konar reykbomba - það sem heitir "wag the dog" á amerísku. Annars var þetta forvitnileg atburðarás. Halldór Ásgrímsson kom ábúðarmikill í pontu og sagði að sjálfur Bondevik hefði hringt áhyggjufullur í sig. Tillögurnar voru þrásinnis sendar aftur í nefnd - útvötnuðust stöðugt. Steingrímur Hermannsson stóð upp og sýndi hvað hann hann hefur mikið autoritet í flokknum. Niðurstaðan var loks sú að Evrópuaðild eigi "hugsanlega" að ræða. En auðvitað eiga framsóknarmenn hrós skilið fyrir að tala um þetta. Gamli Evrópuandstæðingurinn Bondevik er löngu hættur að vera afdráttarlaus varðandi ESB; hann hefur sagt að margt hafi breyst og hann sé að íhuga málið. Daginn sem Norðmenn vilja fara inn erum við á hraðleið þangað líka - það er óumflýjanlegt. --- --- --- Sérstök upplifun er að ganga yfir Lækjartorg snemma á laugardags- og sunnudagsmorgnum, áður en mannafli og bílar frá hreinsunardeildinni koma á vettvang til að þrífa ógeðið. Út um allt eru glerbrot, umbúðir utan um skyndibitamat, sígarettustubbar, ælublettir á víð og dreif, fuglar að gæða sér á herlegheitunum. Vantar bara nokkrar rottur til að fullkomna myndina. Sóðaskapurinn er ótrúlegur. Klukkan er hálf níu að morgni. Hér og þar er fólk að tínast burt úr skemmtanalífinu, ölvaðir menn sem rangla um, drattast og drullast, einir sér eða í óásjálegum hópum. Svo koma hreinsibílarnir og þá hverfa ummerki næturinnar furðu fljótt. Það er engin furða þótt Vigdís Finnbogadóttir segi að ungt fólk á Íslandi sé sóðar. Hún virðist hafa komið niður í bæ á þessum tíma og spyr í viðtali í blaði Verslunarskólans hvort ungt fólk kannist ekki við ruslafötur? Fólk af minni kynslóð var alið upp í átakinu "hrein torg - fögur borg" - einhvern veginn skánaði umgengnin. En er það virkilega svo að þurfi að reka stanslausan áróður fyrir svo einföldum hlut? Annars mun þetta víst vera alþjóðlegt fyrirbæri; ég las einhvers staðar að það væri til dæmis áberandi að miklu meira rusl væri skilið eftir á stórum rokkhátíðum úti í löndum en áður. --- --- --- Bendi svo á að umræðuna um trúarbragðakennslu sem var talað um í Silfrinu í dag er að finna í neðanmálsgreinum við þennan pistil. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Pistlar Silfur Egils Mest lesið Inngilding – nýyrði sem enginn skilur? Miriam Petra Ómarsdóttir Awad Skoðun Vantar fleiri lyftara í heilbrigðiskerfið? Ragna Sigurðardóttir Skoðun Að sætta sig við brot á samkomulagi eða ekki Jón Ágúst Eyjólfsson Skoðun Afhendum raunverulegum eigendum hlut sinn í Íslandsbanka til jafns Sigmundur Davíð Gunnlaugsson Skoðun Kæru smiðir, hárgreiðslufólk og píparar! Víðir Reynisson Skoðun Vilja miklu stærra bákn Hjörtur J. Guðmundsson Skoðun Geðheilbrigðismál og landsbyggðin Eydís Ásbjörnsdóttir Skoðun Er píparinn þinn skattsvikari? Kristinn Karl Brynjarsson Skoðun Kosningar og ,ehf gatið‘ Róbert Farestveit Skoðun Kæra unga móðir Jóna Þórey Pétursdóttir Skoðun
Gæti verið að Bush hafi rétt fyrir sér? Þessu veltir Claus Christian Malzhan, greinarhöfundur hjá þýska tímaritinu Der Spiegel, fyrir sér í grein sem hefur vakið mikla athygli bæði austan hafs og vestan. Malzhan nefnir heimsókn Ronalds Reagans til Berlínar 1987, en þá var hann með eindæmum óvinsæll í Þýskalandi. Reagan tók sér stöðu við Berlínarmúrinn og sagði stundarhátt: "Herra Gorbatsjov, rífðu niður þennan vegg!" Fyrir þetta var mikið grín gert að Reagan í þýsku pressunni - ræðan hans var vissulega full af hvimleiðum klisjum. Tveimur árum síðar féll Múrinn. Engan þýskan stjórnmálamann hafði órað fyrir því. Þeir höfðu hæðst að Reagan og talið hann veruleikafirrtan draumóramann, líklega bjána. Svona væri ekki alvöru pólitík. Greinarhöfundur spyr hvort heimsókn Bush til Þýskalands í síðustu viku sé að einhverju leyti svipuð. Hann ræðir hversu Evrópubúar og Bandaríkjamenn séu ólíkir, veltir fyrir sér hvort Evrópumenn nú eins og þá geti ekki ímyndað sér að heimurinn breytist - þeirra viðmið séu þjóðfélög gærdagsins. Kannski séu Bandaríkjamenn hæfari til að sjá fyrir breytingar, enda búi þeir í miklu hreyfanlegra samfélagi. Kannski, segir Malzhan, fá íbúar Sýrlands, Írans og Jórdaníu þá flugu í höfuðið að losa sig við ríkisstjórnir sem kúga þegna sína, svona líkt og íbúar Austur-Þýskalands. Það hafi til dæmis ríkt þögn hjá kjaftastéttunum í Evrópu í fáeina daga eftir kosningarnar í Írak; rétt eins Þýskalandssérfræðingar þögnuðu 9. nóvember 1989 þegar Múrinn féll. Hér má lesa grein Malzhans í enskri útgáfu. --- --- --- Þeir sem vilja byggja samgöngumiðstöð í Vatnsmýrinni hafa örugglega aldrei ferðast með strætó. Fyrir fólk sem þekkir strætisvagnana hljómar samgöngumiðstöðin eins og geðveiki. Þetta verður enn einn útúrdúrinn í alltof gisnu leiðakerfi. Ég bendi til dæmis á að ef maður vill fara úr Vesturbænum upp á Stöð 2 á Lynghálsi með strætisvagni er Loftleiðahótelið einn af fjölda útúrdúra á leiðinni. Þar kemur einstöku sinnum útlendingur um borð í vagninn. Ferðalagið tekur yfirleitt ekki minna en 45 mínútur. Í Vatnsmýrinni er nákvæmlega enginn sem þarf að taka strætó. Fólk fer ekki með strætó út á flugvöll og tekur svo vélina til Akureyrar. Þeir sem koma úr flugvélum fara ekki upp í strætó. Í rauninni er líka út í hött að hafa rútustöð þarna líka - það eru nákvæmlega engin tengsl milli rútuferða og flugsins. Um flugvöllinn fara sirkabát 1000 manns á dag, líklegt er að sú tala dragist saman eftir að framkvæmdunum á Kárahnjúkum lýkur. Það er óskiljanlegt að þurfi að byggja miðstöð fyrir meira en milljarð fyrir þessar fáu hræður og sveigja svo samgöngukerfið í borginni að því. Þetta er ekkert annað en absúrdismi. Eini tilgangurinn með samgöngumiðstöðinni er að festa flugvöllinn í sessi. Og í þessu makkar borgarstjórnin með. --- --- --- Umræðan um Evrópumálin á flokksþingi Framsóknar var að sönnu nokkuð óvænt. Maður hefur eiginlega ekkert heyrt talað um Evrópu í mörg ár; það er líkt og engum hafi þótt vera neinn hiti í málinu í langan tíma. Hvernig stendur þá á þessu? Helgi Hjörvar var í þættinum hjá mér í dag og kastaði því fram að þetta væru spunalækningar á háu stigi - það væri verið að tala um Evrópu til að framsóknarmenn færu ekki að tala um einhver önnur mál, miklu óþægilegri. Þannig væri Evrópuumræðan eins konar reykbomba - það sem heitir "wag the dog" á amerísku. Annars var þetta forvitnileg atburðarás. Halldór Ásgrímsson kom ábúðarmikill í pontu og sagði að sjálfur Bondevik hefði hringt áhyggjufullur í sig. Tillögurnar voru þrásinnis sendar aftur í nefnd - útvötnuðust stöðugt. Steingrímur Hermannsson stóð upp og sýndi hvað hann hann hefur mikið autoritet í flokknum. Niðurstaðan var loks sú að Evrópuaðild eigi "hugsanlega" að ræða. En auðvitað eiga framsóknarmenn hrós skilið fyrir að tala um þetta. Gamli Evrópuandstæðingurinn Bondevik er löngu hættur að vera afdráttarlaus varðandi ESB; hann hefur sagt að margt hafi breyst og hann sé að íhuga málið. Daginn sem Norðmenn vilja fara inn erum við á hraðleið þangað líka - það er óumflýjanlegt. --- --- --- Sérstök upplifun er að ganga yfir Lækjartorg snemma á laugardags- og sunnudagsmorgnum, áður en mannafli og bílar frá hreinsunardeildinni koma á vettvang til að þrífa ógeðið. Út um allt eru glerbrot, umbúðir utan um skyndibitamat, sígarettustubbar, ælublettir á víð og dreif, fuglar að gæða sér á herlegheitunum. Vantar bara nokkrar rottur til að fullkomna myndina. Sóðaskapurinn er ótrúlegur. Klukkan er hálf níu að morgni. Hér og þar er fólk að tínast burt úr skemmtanalífinu, ölvaðir menn sem rangla um, drattast og drullast, einir sér eða í óásjálegum hópum. Svo koma hreinsibílarnir og þá hverfa ummerki næturinnar furðu fljótt. Það er engin furða þótt Vigdís Finnbogadóttir segi að ungt fólk á Íslandi sé sóðar. Hún virðist hafa komið niður í bæ á þessum tíma og spyr í viðtali í blaði Verslunarskólans hvort ungt fólk kannist ekki við ruslafötur? Fólk af minni kynslóð var alið upp í átakinu "hrein torg - fögur borg" - einhvern veginn skánaði umgengnin. En er það virkilega svo að þurfi að reka stanslausan áróður fyrir svo einföldum hlut? Annars mun þetta víst vera alþjóðlegt fyrirbæri; ég las einhvers staðar að það væri til dæmis áberandi að miklu meira rusl væri skilið eftir á stórum rokkhátíðum úti í löndum en áður. --- --- --- Bendi svo á að umræðuna um trúarbragðakennslu sem var talað um í Silfrinu í dag er að finna í neðanmálsgreinum við þennan pistil.
Afhendum raunverulegum eigendum hlut sinn í Íslandsbanka til jafns Sigmundur Davíð Gunnlaugsson Skoðun
Afhendum raunverulegum eigendum hlut sinn í Íslandsbanka til jafns Sigmundur Davíð Gunnlaugsson Skoðun