Lífið

Samkeppni um hönnun Háskólatorgs

Ríkiskaup fyrir hönd Framkvæmdasýslu ríkisins og Háskóla Íslands hafa auglýst eftir alverktaka til að taka þátt í samkeppni um hönnun og byggingu Háskólatorgs. Verkið felur í sér hönnun og byggingu tveggja nýbygginga á lóða Háskóla Íslands við Suðurgötu í Reykjavík eins og kemur fram á vefsíðu Ríkiskaupa, rikiskaup.is. Önnur byggingin, Háskólatorg I, er um fimm þúsund fermetrar og skulu þar vera meðal annars kennslustofur, lesrými, bóksala stúdenta og veitingaaðstaða. Sú bygging verður byggð milli aðabyggingar Háskóla Íslands og íþróttahúss og verður tengd við það og Lögberg. Hin byggingin, Háskólatorg II, er um þrjú þúsund fermetrar og þar skulu meðal annars vera skrifstofur fyrir og lesrými fyrir stúdenta. Sú bygging verður á milli Odda, Lögbergs og Nýja Garðs og verður tengd við Odda og Lögberg. Áætluð stærð tengibygginga er um fimm hundruð fermetrar. Helsta markmið nýju bygginganna er að þétta svæði Háskólans, tengja byggingar sem þegar eru á svæðinu saman og mynda þannig heildstæðara Háskólatorg og miðju háskólasvæðisins sem byggir á hugmyndinni um háskóla sem samfélag í kringum torg. Til alútboðs verða valdir allt að fimm alverktakar sem keppa um hönnun Háskólatorgs og fá afhent útboðsgögn að forvali loknu. Frestur til að skila inn þátttökutilkynningum rennur út fjórtánda apríl.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×