Lífið

Umpottun með hækkandi sól

Þeir sem vilja gera inniblómunum verulega til góða nota vorin til að gefa þeim nýja mold. Sérstaklega er verkið knýjandi ef laufin eru farin að gulna og falla. Þegar hafist er handa er betra að blómið sé vel rakt. Það er tekið milli fingranna, pottinum hvolft og gamla moldin hreinsuð varlega utan af rótunum að mestu. Nauðsynlegt er að setja litla steinvölu, leirbrot eða vikur neðst í botninn á pottinum og lag af nýrri mold þar ofan á. Síðan er plantan sett ofan í hann að nýju en stundum er reyndar nauðsynlegt að kaupa aðeins stærri pott og veita henni þannig meira svigrúm. Nýja moldin er sett meðfram rótunum og síðan að plöntunni sjálfri og þrýst létt að. Nauðsynlegt er að hafa borð á pottinum, svona um 2 cm til að auðvelt sé að vökva. Að lokum er plantan vökvuð vel í nýju moldinni. Sé verið að koma afleggjara til í nýrri mold er gott að hafa blómið í plasti fyrstu dagana á eftir. Ekki má gefa blómum áburð fyrr en átta vikum eftir umpottun eða gróðursetningu. Plöntur sem ekki fara í umpottun er hins vegar gott að vökva með áburðargjöf með hækkandi sól.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×