Lífið

Skreytt og sérstakt steingólf

"Þegar málað er á steingólf er best að grunna gólfið fyrst með olíulakki. Það er ódýrasta aðferðin til að grunna og líka mjög góð. Þá er lakkið þynnt 25 prósent með terpentínu og farið ein umferð með því á gólfið. Síðan eru tvær umferðir málaðar yfir gólfið með lakkmálningu til að fá litinn á gólfið," segir Sverrir Einarsson, starfsmaður hjá Litaveri á Grensásvegi 18. Að sögn Sverris eru litir í lakkmálningu ansi takmarkaðir og ekki eins margir og fást í "venjulegri" málningu ef svo má segja. "Til að fá aðra liti á gólfið er hægt að mála fyrst með vatnsmálningu, útþynntri með vatni, yfir gólfið og síðan tvær til þrjár umferðir með glærri, óþynntri lakkmálningu," segir Sverrir. Fréttablaðið hvetur fólk til að láta ímyndunaraflið taka öll völd þegar steingólf eru máluð því það er svo margt hægt að gera annað en að mála í hefðbundnum litum. "Við eigum flögur í nokkrum litum, gráu, drapplituðu, rauðu, grænu og fleiri litum sem hægt er að skreyta gólfið með. Flögunum er dreift yfir gólfið þegar búið er að mála og síðan lakkað yfir með glæru lakki til að loka flögurnar inni," segir Sverrir en ætli sé ekki hægt að skella hverju sem er á gólfið, eins og glimmeri eða fjöðrum, til að gera steingólfið sem flottast og sérstakast? "Það ætti alveg að vera hægt - svo lengi sem er lakkað yfir." Þegar litið er aftur um fimm eða tíu ár þá var ekki einu sinni rætt um það að mála gólf. Það var bara teppi, dúkar og parkett sem réð ríkjum. Nú, með innreið naumhyggjunnar, hefur hins vegar máluðum gólfum fjölgað og Sverrir og samstarfsmenn hans hjá Litaveri finna svo sannarlega fyrir því. "Þetta er heilmikið að aukast og það eru mjög margir sem sýna þessu áhuga og spyrja um þetta." Hugmyndir að hlutum til að skreyta steingólf með:  Glimmer  Fjaðrir Rósablöð Úrklippur úr blöðum Umbúðir af alls kyns vörum Perlur Skeljar Fjölskyldumyndir Uppáhaldstilvitnanir Veggfóður
Vel er hægt að skreyta steingólfið með perlum af ýmsu tagi.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×