Lífið

Rýmið notað til hins ítrasta

Þýski arkitektinn, Luigi Colani, hefur hannað skemmtilegt kassalaga hús fyrir einhleypa sem er aðeins 36 fermetrar en rýmið er nýtt á mjög hugvitsamlegan máta. Það sem er einna merkilegast við þetta hús er þrískipt hringlaga eining inni í húsinu sem er með baði, svefnherbergi og eldhúsi. Hringlaga einingin er rafstýrð og sá hluti sem notaður er hverju sinni látinn snúa fram. Klósettinu er komið fyrir í sérherbergi aftan við eininguna en annað rými í húsinu nýtist sem stofa og borðstofa. Útlit hússins er allt mjög fallegt, gluggarnir eru stórir og lítill sólpallur stendur út af húsinu. Ekki þarf að hafa stórar áhyggjur af húsgögnum því flest er innbyggt í húsið, og hentar þetta vel þeim sem eiga lítið dót og vilja bara þægilegt rými að búa í. Colani telur þetta vera framtíðina þar sem rými virðist fara minnkandi og sífellt fleiri kjósa að búa einir. Sérstaklega bindur hann vonir við að húsið verði vinsælt í Asíu þar sem skortur á rými er mikið vandamál.
Hringlaga einingu í húsinu er hægt að snúa og fá þá nýtt herbergi.
Í einingunni er meðal annars baðherbergi og eldhús.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×