Mengun 17. apríl 2005 00:01 Ætli sé einhver leið til að fá Umferðarstofu til að hætta að æpa á okkur? Auglýsingar þessarar skrifstofu verða æ tryllingslegri eftir því sem afraksturinn af þeim virðist minni: engu líkara en að þeir sem fyrir þeim standa hugsi sem svo: nújá, við verðum víst að æpa hærra... Aprílmorgun, það er fimmtudagur eða föstudagur. Stráin standa þrábeint upp í loftið, himinninn er tær; fuglarnir kringum húsið flögra ýmist og hlaupa um hingað og þangað, en þeir virðast vita hvað þeir eru að gera; í moldu iðja starfsamir ánamaðkar; kisurnar saka mig um vanrækslu þótt nóg sé af mat í dallinum og nýtt vatn og opið út. Þetta er notalegt. Maður masar og ríslar sér. Kaffið ilmar, blöðin bíða full af fyrirheitum. Klukkan nálgast hálf átta og kannski mál að rjúfa loksins þögnina og heyra yfirlit morgunfrétta, hugsanlega eitthvað kliðmjúkt gítarplokk á vegum Magnúsar Einarssonar svo sem eins og til að koma okkur áreynslulaust í samband við þjóðfélagið og atburðina í heiminum. Mistök. Gítarplokkið er að vísu á sínum stað en það deyr út og allt í einu er mjög óviðkunnanleg kona í útvarpinu. Hún er að láta einhvern mann fá það óþvegið. Hún kallar hann heilalausan hálfvita. Hún er geysilega æst og skipar honum með mörgum hæðilegum orðum að aka hraðar. Langar mig að hlusta á leikþátt um æsta konu í umferðinni fyrir klukkan hálf átta að morgni? Nei. Þarf ég þess? Nei. Hef ég gott af því? Nei. Og svo tístir lítil stelpa eitthvað í aftursætinu og konan reiða breytist í elskulega mömmu, já já elskan mín, og karlmannsrödd dæsir loks þungbúin og svo full ásökunar að manni líður næstum eins og Jahve sjálfur spyrji mann: ert þú góð fyrirmynd? Svarið getur ekki orðið já. Ég sem hafði bara verið dunda eitthvað í eldhúsinu heima átti nú að hugsa: mea culpa, mea magna culpa og að baki var enn ein heimsádeilan frá Umferðarstofu um það hversu ömurlegir foreldrar, ömurlegir bílstjórar, ömurlegir þegnar og ömurlegt fólk við séum. Og að okkur beri að iðrast og gjöra yfirbót. Hér hefur hugmyndin um hópsekt Íslendinga í umferðinni náð nýjum hæðum. Margt er vitaskuld slæmt í umferðinni á Íslandi og hvernig má svo sem annað vera? Hér eru alltof margir bílar, alltof margir krakkar á bíl sem ættu að vera í strætó og sumir karlmenn virðast bara hafa lært á bílinn en ekki að keyra. Ýmsir ósiðir hafa breiðst út síðustu árin: til dæmis að telja það trúnaðarupplýsingar hvort maður hafi í hyggju að beygja svo að stefnuljós er í mesta lagi notað sem frásagnartæki: ég var að beygja - eða tilhneiging til að aka ofan í næsta bíl með þeim afleiðingum að aftanákeyrslur eru hálfgert þjóðarböl. Auglýsingaherferðir Umferðarstofu til að vekja okkur til vitundar um það hversu vondir bílstjórar og vont fólk við séum eru hins vegar líka að verða hálfgert þjóðarböl. Fyrst var okkur sýnt dáið fólk ofan í malbiki á meðan raulaðar voru Vísur Vatnsenda-Rósu, þessar snilldarvísur sem Jón Ásgeirsson fann undur-fallegt lag við og útsetti með eigin millikafla. Að tengja slíka þjóðargersemi við umferðarslys jaðrar við landráð. Næst komu hinar frægu auglýsingar um ábyrgðarlausa feður að henda börnum út um allt og einkum niður stiga. Þegar búið var að hryggja okkur nægilega með þeim auglýsingum tóku við jarðarfararmyndir á meðan barn - að sjálfsögðu - snökti lagið hans Atla Heimis við Klementínuvísur Halldórs Laxness - ertu dáin út í bláinn og það allt - sem er skemmtilegt bull hjá Halldóri en verður svo yfirþyrmandi óþægilegt við mann í meðförum Umferðarstofu að maður vill helst aldrei aftur heyra þetta aftur. Þótt á Umferðarstofu vinni menn við að hafa rétt fyrir sér og segja okkur hinum til á sviðum þar sem okkur er sífellt að verða eitthvað þá - þá gerir það samt Umferðarstofu ekki að Þjóðkirkjunni. Þessi stofnun álpast aftur og aftur inn á svið sem auglýsingar eiga ekki heima á: svið vandlætarans, predikarans og gott ef ekki fjölskylduráðgjafans. Og meðal annarra orða: hvað er að því að þusa undir stýri? Vel tvinnaðar bílstjóraformælingar geta verið listgrein í sjálfu sér. Sú munnsöfnuðurinn vandamál þá hlýtur það að vera í verkahring fjölskyldu viðkomandi að þagga niður í hinum síbölvandi bílstjóra en ekki Umferðarstofu. Og ekki hægt að íþyngja okkur hinum með sífellldum endurtekningum á þessu leiðinlega útvarpsleikriti. Þessar nærgöngular auglýsingar Umferðarstofu eru naumast til annars fallnar en að gera þá skapvondu enn skapverri og koma blíðasta fólki í vont skap. Svona auglýsingar eru mengun í þjóðlífinu. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Fastir pennar Guðmundur Andri Thorsson Mest lesið Inngilding – nýyrði sem enginn skilur? Miriam Petra Ómarsdóttir Awad Skoðun Vantar fleiri lyftara í heilbrigðiskerfið? Ragna Sigurðardóttir Skoðun Að sætta sig við brot á samkomulagi eða ekki Jón Ágúst Eyjólfsson Skoðun Afhendum raunverulegum eigendum hlut sinn í Íslandsbanka til jafns Sigmundur Davíð Gunnlaugsson Skoðun Kæru smiðir, hárgreiðslufólk og píparar! Víðir Reynisson Skoðun Geðheilbrigðismál og landsbyggðin Eydís Ásbjörnsdóttir Skoðun Vilja miklu stærra bákn Hjörtur J. Guðmundsson Skoðun Er píparinn þinn skattsvikari? Kristinn Karl Brynjarsson Skoðun Kosningar og ,ehf gatið‘ Róbert Farestveit Skoðun Kæra unga móðir Jóna Þórey Pétursdóttir Skoðun
Ætli sé einhver leið til að fá Umferðarstofu til að hætta að æpa á okkur? Auglýsingar þessarar skrifstofu verða æ tryllingslegri eftir því sem afraksturinn af þeim virðist minni: engu líkara en að þeir sem fyrir þeim standa hugsi sem svo: nújá, við verðum víst að æpa hærra... Aprílmorgun, það er fimmtudagur eða föstudagur. Stráin standa þrábeint upp í loftið, himinninn er tær; fuglarnir kringum húsið flögra ýmist og hlaupa um hingað og þangað, en þeir virðast vita hvað þeir eru að gera; í moldu iðja starfsamir ánamaðkar; kisurnar saka mig um vanrækslu þótt nóg sé af mat í dallinum og nýtt vatn og opið út. Þetta er notalegt. Maður masar og ríslar sér. Kaffið ilmar, blöðin bíða full af fyrirheitum. Klukkan nálgast hálf átta og kannski mál að rjúfa loksins þögnina og heyra yfirlit morgunfrétta, hugsanlega eitthvað kliðmjúkt gítarplokk á vegum Magnúsar Einarssonar svo sem eins og til að koma okkur áreynslulaust í samband við þjóðfélagið og atburðina í heiminum. Mistök. Gítarplokkið er að vísu á sínum stað en það deyr út og allt í einu er mjög óviðkunnanleg kona í útvarpinu. Hún er að láta einhvern mann fá það óþvegið. Hún kallar hann heilalausan hálfvita. Hún er geysilega æst og skipar honum með mörgum hæðilegum orðum að aka hraðar. Langar mig að hlusta á leikþátt um æsta konu í umferðinni fyrir klukkan hálf átta að morgni? Nei. Þarf ég þess? Nei. Hef ég gott af því? Nei. Og svo tístir lítil stelpa eitthvað í aftursætinu og konan reiða breytist í elskulega mömmu, já já elskan mín, og karlmannsrödd dæsir loks þungbúin og svo full ásökunar að manni líður næstum eins og Jahve sjálfur spyrji mann: ert þú góð fyrirmynd? Svarið getur ekki orðið já. Ég sem hafði bara verið dunda eitthvað í eldhúsinu heima átti nú að hugsa: mea culpa, mea magna culpa og að baki var enn ein heimsádeilan frá Umferðarstofu um það hversu ömurlegir foreldrar, ömurlegir bílstjórar, ömurlegir þegnar og ömurlegt fólk við séum. Og að okkur beri að iðrast og gjöra yfirbót. Hér hefur hugmyndin um hópsekt Íslendinga í umferðinni náð nýjum hæðum. Margt er vitaskuld slæmt í umferðinni á Íslandi og hvernig má svo sem annað vera? Hér eru alltof margir bílar, alltof margir krakkar á bíl sem ættu að vera í strætó og sumir karlmenn virðast bara hafa lært á bílinn en ekki að keyra. Ýmsir ósiðir hafa breiðst út síðustu árin: til dæmis að telja það trúnaðarupplýsingar hvort maður hafi í hyggju að beygja svo að stefnuljós er í mesta lagi notað sem frásagnartæki: ég var að beygja - eða tilhneiging til að aka ofan í næsta bíl með þeim afleiðingum að aftanákeyrslur eru hálfgert þjóðarböl. Auglýsingaherferðir Umferðarstofu til að vekja okkur til vitundar um það hversu vondir bílstjórar og vont fólk við séum eru hins vegar líka að verða hálfgert þjóðarböl. Fyrst var okkur sýnt dáið fólk ofan í malbiki á meðan raulaðar voru Vísur Vatnsenda-Rósu, þessar snilldarvísur sem Jón Ásgeirsson fann undur-fallegt lag við og útsetti með eigin millikafla. Að tengja slíka þjóðargersemi við umferðarslys jaðrar við landráð. Næst komu hinar frægu auglýsingar um ábyrgðarlausa feður að henda börnum út um allt og einkum niður stiga. Þegar búið var að hryggja okkur nægilega með þeim auglýsingum tóku við jarðarfararmyndir á meðan barn - að sjálfsögðu - snökti lagið hans Atla Heimis við Klementínuvísur Halldórs Laxness - ertu dáin út í bláinn og það allt - sem er skemmtilegt bull hjá Halldóri en verður svo yfirþyrmandi óþægilegt við mann í meðförum Umferðarstofu að maður vill helst aldrei aftur heyra þetta aftur. Þótt á Umferðarstofu vinni menn við að hafa rétt fyrir sér og segja okkur hinum til á sviðum þar sem okkur er sífellt að verða eitthvað þá - þá gerir það samt Umferðarstofu ekki að Þjóðkirkjunni. Þessi stofnun álpast aftur og aftur inn á svið sem auglýsingar eiga ekki heima á: svið vandlætarans, predikarans og gott ef ekki fjölskylduráðgjafans. Og meðal annarra orða: hvað er að því að þusa undir stýri? Vel tvinnaðar bílstjóraformælingar geta verið listgrein í sjálfu sér. Sú munnsöfnuðurinn vandamál þá hlýtur það að vera í verkahring fjölskyldu viðkomandi að þagga niður í hinum síbölvandi bílstjóra en ekki Umferðarstofu. Og ekki hægt að íþyngja okkur hinum með sífellldum endurtekningum á þessu leiðinlega útvarpsleikriti. Þessar nærgöngular auglýsingar Umferðarstofu eru naumast til annars fallnar en að gera þá skapvondu enn skapverri og koma blíðasta fólki í vont skap. Svona auglýsingar eru mengun í þjóðlífinu.
Afhendum raunverulegum eigendum hlut sinn í Íslandsbanka til jafns Sigmundur Davíð Gunnlaugsson Skoðun
Afhendum raunverulegum eigendum hlut sinn í Íslandsbanka til jafns Sigmundur Davíð Gunnlaugsson Skoðun