Sport

Valur mætir Sjundea í dag

Valur mætir í dag Sjundea IF öðru sinni í Evrópukeppninni í handbolta en Valur vann fyrri leikinn með sex marka mun, 33-27 í Finnalandi. Óskar Bjarni Óskarsson, þjálfari Vals á von á erfiðum leik, þar sem fyrri leikurinn var jafnari en lokatölurnar gefa til kynna. "Við höfðum undirtökin í fyrrileiknum lengst af en náðum ekki að hrista Finnana af okkur fyrr en undir lokin, en við unnum síðustu fimm mínúturnar með fimm mörkum gegn einu. Þó við höfum unnið fyrri leikinnn með sex marka mun þá er ekki þar með sagt að við séum komnir áfram. Það þarf að klára þetta verkefni og það þurfa allir að vera einbeittir allan leikinn og tilbúnir til þess að leggja sitt af mörkum." Óskar segir það veikja finnska liðið töluvert að vera ekki með neina eiginlega hægri skyttu. "Það er slæmt fyrir Finnana að þurfa að spila með hornamann í skyttuhlutverkinu og það myndast veikleikar í sóknarleik þeirra út frá því. En annars finnst mér við vera með betri markverði og það skiptir auðvitað miklu máli. Bæði Hlynur Jóhannesson og Pálmar Pétursson hafa verið að verja vel í leikjum okkar til þessa. En það eru margir sterkir leikmenn hjá þessu liði sem mega alls ekki fá tíma til þess að ná góðum skotum að markinu þannig að varnarleikurinn verður að vera góður. Það er tilhlökkun í mannskapnum og við munum gera allt sem í okkar valdi stendur til þess að tryggja Val áframhaldandi þátttöku í Evrópukeppninni."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×