Frí var gefið í fyrsta tíma í Menntaskólanum á Egilsstöðum í morgun vegna þáttarins Rock Star Supernova sem var sýndur klukkan eitt í nótt.
Undanfarið hafa hvatningar borist í formi tölvupósts og auglýsinga um að fólk vekti frameftir til að kjósa Magna Ásgeirsson til áframhaldandi þátttöku í þáttunum. Af því tilefni lagði einn starfsmaður menntaskólans til að frí yrði gefið í fyrsta tíma, að sögn Helga Ómars Bragasonar skólameistara.
„Það verður vaka í hátíðarsal skólans og væntanlega sameinast nemendur og starfsfólk þar í áhorfi í nótt.“

