Íslenski boltinn

Við áttum greinilega að falla

„Við höfum verið að bjóða hættunni heim síðustu ár og það er ekki þessi leikur hér sem fellir okkur. Þetta byrjaði mikið fyrr,“ sagði fyrirliði Grindvíkinga, Óðinn Árnason, svekktur í leikslok.

„Það er sárt að falla en ég tel að við höfum lagt okkur alla fram í leikinn. Við sköpuðum helling af færum en það vantar að klára þau. Það vantar lítið hjá okkur. Svo virðist sem þetta hafi verið í kortunum. Við áttum greinilega að falla,“ sagði Óðinn, sem gerir ráð fyrir því að vera áfram enda sé hann með samning við liðið.

Grindvíkingurinn Óli Stefán Flóventsson hefur marga fjöruna sopið með liði sínu og oft bjargað því. Hann náði ekki að setja mark sitt á þennan leik.

„Það er ekki endalaust hægt að bjarga sér. Við börðumst fyrir þessu og ég tel okkur hafa fallið með sæmd. Það fór mikil orka í fyrri hálfleik og það sást aðeins í síðari hálfleiknum. Við höfðum ekki þrek í allan leikinn en börðumst samt til enda og það var ég ánægður með,“ sagði Óli Stefán og bætti því við að hann ætti von á að vera áfram í herbúðum félagsins í 1. deild að ári. „Ég er Grindvíkingur alveg í gegn og reikna með því að vera áfram og hjálpa liðinu að komast upp aftur.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×