Menning

Síðkaþólskt gæðapopp

Einkar aðgengilegur kveðskapur en stendur langt að baki Lilju og Passíusálmunum. Stjörnur: 3
Einkar aðgengilegur kveðskapur en stendur langt að baki Lilju og Passíusálmunum. Stjörnur: 3

Lofsvert framtak að gefa út kveðskap Jóns Arasonar biskups. Kemur nú fyrsta sinni á bók í heild sinni - með vönduðum skýringum Kára Bjarnasonar og greinargóðum inngangi Ásgeirs Jónssonar.

Rétt þó að hræða ekki lesandann: þótt næstum 500 ára sé er þetta einkar aðgengilegur kveðskapur, öllum auðskiljanlegur, jafnt orðfæri sem erindi, án nokkurrar þekkingar annarrar en barnaskólalærdóms í biblíusögum. Bara að skella sér útí og stíga á vatnið með Jesúsi og Jóni, maður flýtur einsog ekkert sé.

Nú er vitaskuld átt við þann kveðskap sem eignaður er Jóni, því með fræðilegri fullvissu er hvergi stafur á bók (handriti) sannarlega Jóns. Óljóst ætternið klagar hinsvegar hvorki uppá Jón né kveðskapinn, báðum er búbót að hinum. Ekki síst er kveðskapnum hald í Jóni því sá síðarnefndi er vissulega þjóðhetja, lýðkær með eindæmum í lífi og eilífð, eiðsvarinn landi og þjóð, en vísast meiri dansari en skáld. Þó umfram allt: píslarvottur og tragísk hetja. Öxin geymir Arason í vitund þjóðarinnar, ekki orðið, og verður svo áfram þráttfyrir þessa ágætu bók.

Dansari var Jón bæði í klassískum og „kúnderskum" skilningi („reyndur popúlisti" segir Ásgeir í inngangi - það er nánast kúnderski skilningurinn: sjálfsdýrð sviðsljóssins) og sté sporið í lífi og list Drottni sínum til framdráttar. Þá var hann tónlistar- og gleðimaður. Sér því stað í trúarkveðskap hans engu síður en þeim veraldlega - ekki alveg óskyldur því fagnaðarerindi sem sértrúarsöfnuðir nútímans nefna „í stuði með guði lög" - og fer vel á því að dilla sér í huganum undir lestri, jafnvel snúa sér í hring.

Grínlaust: andlegur kveðskapur síðustu alda kaþólskunnar á Íslandi var nátengdur tónlist og dansi og sjálft helgihaldið rokkandi fjörugt. Rök hníga að því. (Danakóngur og Lúter gáfu síðan andskotanum einkarétt á syndinni og saman kváðu þeir dansinn í kútinn svo kirfilega að ekki mátti sletta úr klaufinni uppí vindinn í hafátt að Bessastöðum & biskupum vorum siðbættum um aldir ánþess að brenna í Víti og Höfn fyrir vikið, bækur og menn. Sígild söguskýring). Önnur saga.

Öll gætu þessi kvæði í upphafi hafa verið danslagatextar og alveg óvíst að höfundur hafi litið á sig sem „skáld" (og alls ekki í hátíðlegum skilningi). Því gerir hann - að aldasið - hvorki tilraun til sjálfstæðrar úrvinnslu efnisins né áberandi skáldlegra tilþrifa: hann einfaldlega færir heilaga ritningu í sönghæfan dansbúning - og gerir það svo átakalaust að enn má njóta með öllum kropp. Ekki misskilja mig: Jón var vitaskuld einlægur trúmaður og ákall hans til Drottins ekkert grín. Trú kvæðanna er og verður þeirra aðall, þeim sem á trúa.

En hvernig sem menn reyna að fara að því að bæta sér upp ládeyðu „miðaldarinnar" (ca 1350-1650), „brúa bilið", „rjúfa ekki samhengið", rekast menn alltaf vængjalausir á sama búkolluvegginn: allur varðveittur kveðskapur tímabilsins stendur - að skáldskapargildi - Lilju Eysteins og Passíusálmum Hallgríms óralangt að baki. Sjálfsagt í lofsverðri útgáfu um (meintan) kveðskap Jóns Arasonar að leiða rök að öðru með öllum mögulegum bolum, enda bera þeir Ásgeir og Kári sig mannalega í þeim ójafna skessuleik.

Orðan fellur, úti er þetta fræði. Amen. Amen! Endir verður á kvæði (105). Þannig slær biskupinn botn í sinn söng ... (stappaði niður fótunum og sneri sér í hröng?).

Sigurður Hróarsson






Fleiri fréttir

Sjá meira


×