Innlent

Mislæg gatnamót líklega boðin út fyrir áramót

Mislæg gatnamót Miklubrautar og Kringlumýrarbrautar verða að öllum líkindum boðin út fyrir áramót. Til stendur að leggja báðar brautirnar í stokk og leggja hringtorg ofan á, - í svokallaðri þriggja hæða lausn. Málið eru í algerum forgangi hjá nýjum meirihluta í Reykjavík, segir formaður samgöngu- og umhverfisráðs.

Eitt stærsta ágreiningsefnið í síðustu borgarstjórnarkosningum var hvort reisa ætti mislæg gatnamót á mótum Kringumýrarbrautar og Miklubrautar. Samfylkingin og Vinstri - græn sögðu nei en sjálfstæðismenn og frjálslyndir já. Framsóknarmenn voru á báðum áttum.

Nú hafa sjálfstæðismenn og framsóknarmenn myndað nýjan meirihluta og því vaknar sú spurning hvort ráðist verði í verkið. Gísli Marteinn Baldursson, borgarfulltrúi sjálfstæðismanna, segir ekki eftir neinu að bíða í málinu. Hann segir mislæg gatnamót bæði öruggari en núverandi kostur og einnig betri fyrir umhverfið því svifrykið í borginni sé að stórum hluta til komið vegna þess að menn séu alltaf að stoppa og taka af stað.

Sú hugmynd sem helst er rædd í þessu sambandi gerir ráð fyrir að bæði Miklabraut og Kringlumýrarbraut fari í stokk og að ofan á verði hringtorg. Þetta verði þriggja hæða lausn.

Gísli Marteinn segir að borgarbúar þurfi ekki að örvænta því ekki sé um að ræða þrjár hæðir upp heldur niður og landið lyftist að öllum líkindum um einn til tvo metra. Það megi útfæra það frekar eins og henti best fyrir umhverfið en kappkostað verði að gatnamótin falli vel að umhverfinu og að íbúar og fólk í umferðinni verði sáttir við lausnina.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×