Innlent

Ræða um vopnahlé

Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna hefur setið á fundi frá því fyrir klukkan níu í kvöld þar sem rædd verða drög að ályktun um vopnahlé í Líbanon. Á sama tíma hefur Ísraelsher hafið stóraukinn landhernað eins og tilkynnt var fyrr í kvöld.

Ísraelsmenn gerðu alvöru út hótunum sínum og settu aukinn kraft í hernaðaraðgerir sínar í kvöld. Þessu hótaði Ehud Olmert þegar hann tilkynnti að Ísraelar myndu ekki sætta sig við ályktun byggða á þeim drögum sem lögð voru fram í Öryggisráðinu í kvöld. Hann sagði einnig að árásirnar yrðu afturkallaðar ef öryggisráðið samþykkti áætlun sem væri Ísraelum meira að skapi. Markmið landhersins er að reka skæruliða Hisbolla norður fyrir Litani-ána sem Ísraelsmenn hafa merkt við á korti sem mörk þess öryggissvæðis sem þeir yrðu sáttir við.

Á sama tíma í new York situr öryggisráð Sameinuðu þjóðanna á fundi um málefni Líbanons og Ísraels en nánari útlistun á drögum að ályktun ráðsins liggur ekki fyrir. Þó er vitað að drögin heimila að 15 þúsund friðargæsluliðar verði sendir til Líbanons. Olmert krefst þess fyrst og fremst að friðargæsluliðarnir hafi heimild til að beita vopnum gegn hisbolla skæruliðum og þá ekki eingöngu í sjálfsvörn. Einnig vill hann að afar strangt viðskiptabann verði sett á Líbanon til þess að hindra að Hisbolla geti fyllt á vopnabúr sitt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×