Viðskipti innlent

Taprekstur hjá SS

Úr sláturhúsi SS á Selfossi.
Úr sláturhúsi SS á Selfossi. Mynd/Pjetur

Samstæða Sláturfélags Suðurlands tapaði 24,8 milljónum króna á fyrstu sex mánuðum ársins. Þetta er nokkur umsnúningur frá síðasta ári þegar félagið skilaði 182 milljóna króna hagnaði. Í uppgjöri félagsins segir að aðstæður á kjötmarkaði hafi einkennst af skort á nær öllum kjöttegundum. Reiknað er með því að framboð aukist á næstu sex mánuðum og muni velta félagsins vaxa við það.

Í hálfsársuppgjöri samstæðunnar kemur fram að lakari afkoma skýrist af 136 milljóna króna minni hagnaði af sölu eigna og 107 milljóna króna hækkun fjármagnsgjalda milli ára vegna gengisbreytingar krónu, hærri vaxta og verðbólgu. Eigið fé Sláturfélagsins er tæpir 1,5 milljarðar króna og er eiginfjárhlutfall samstæðunnar 46 prósent.

Þá námu rekstrartekjur samstæðu Sláturfélags Suðurlands tæpum 2,3 milljörðum króna á fyrri árshelmingi ársins 2006 og er það 2 prósenta hækkun frá sama tíma í fyrra.

Fjármagnsgjöld umfram fjármunatekjur voru 142 milljónir króna en voru 35 milljónir króna árið áður. Gengistap nam 96 milljónum króna samanborið við 3 milljónir króna á sama tímabili í fyrra. Hagnaður af sölu hlutabréfa var 5 milljónir sem er 122 milljónum krónum minna en í fyrra.

Þá voru heildareignir Sláturfélagsins í júnílok rúmir 3,2 milljarðar króna og eiginfjárhlutfall 46 prósent. Veltufjárhlutfall var 1,6 í lok júní 2006, en var 2,0 árið áður.

Í uppgjörinu kemur einnig fram að ekki sé gert ráð fyrir söluhagnaði af eignum með sama hætti og í fyrra sem hefur neikvæð áhrif á afkomu samstæðunnar milli ára.

Háir vextir á innlendri fjármögnun og veiking íslensku krónunnar hefur neikvæð áhrif á afkomu félagsins þar sem það hefur óverulegar tekjur í erlendri mynt, segir í uppgjörinu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×