Innlent

Fækkar í þingflokki Samfylkingarinnar

Valdimar L. Friðriksson, þingmaður Samfylkingarinnar í Suðvesturkjördæmi, sagði sig úr flokknum í beinni útsendingu í Silfri Egils í dag. Þar með fækkar þingmönnum Samfylkingarinnar úr 20 í 19. Valdimar segir prófkjörsfyrirkomulagið hampa þeim sem koma frá stærri bæjum innan kjördæma og þeim sem hafa aðgang að fjármagni, en hann hafnaði í fjórtánda sæti í prófkjöri Samfylkingarinnar í Suðvesturkjördæmi.

Valdimar var gestur Egils Helgasonar í Silfri Egils í dag. Valdimar kom inn á þing á síðasta ári en hafði verið varaþingmaður frá árinu 2003. Valdimar tók þátt í prófkjöri Samfylkingarinnar í Suðvesturkjördæmi og féll í fjórtánda sæti listans. Valdimar segir að um hreina aftöku hafi verið að ræða.

Valdimar segir slæmt gengi hans í prófkjörinu ástæðu úrsagnarinnar en hann er ósáttur við þá leið að nota prófkjör við val á lista flokka, þar sem þeim sem koma úr stærstu bæjarfélögum kjördæma er hampað og þeir komast lengst sem hafa aðgang að fjármagni.

Valdimar vill engu svara um hvort hann hyggist ganga í Frjálslynda flokkinn en hann ætlar að starfa sem óháður þingmaður fyrst um sinn.

Margrét Frímannsdóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, telur eðlilegt að menn í stöðu Valdimars segi af sér þingmennsku.

 

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×