Sport

Guðjón Valur: Kemur mér á óvart

Guðjón Valur er í hópi bestu handboltamanna heims.
Guðjón Valur er í hópi bestu handboltamanna heims. MYND/AFP

"Þetta er búið að ganga ágætlega í ár en ég get ekki sagt annað en að þetta komi mér á óvart," sagði Guðjón Valur Sigurðsson, nýkrýndur Íþróttamaður ársins, í sjónvarpsviðtali eftir kjörið. Guðjón Valur ráðleggur ungum íþróttaiðkendum að hlusta á þjálfara sinn til að ná árangri.

"Hápunkturinn á árinu var þegar ég var valinn besti leikmaður deildarinnar. Það var mjög gaman að hljóta þann heiður, sérstaklega vegna þess að leikmenn deildarinnar standa að kjörinu," sagði Guðjón Valur og gerði mikið í því að hrósa liðsfélögum sínum, bæði hjá liði sínu Gummersbach í Þýskalandi og íslenska landsliðinu.

"Ég stæði ekki hér í dag án félaga minna. Flest mín mörk koma eftir að ég hleyp upp völlinn og tek á móti sendingum frá liðsfélögum mínum. Það gerist varla auðveldara."

Guðjón Valur er bjartsýnn fyrir Heimsmeistaramótið í Þýskalandi sem fram fór í febrúar en þar verður íslenska landsliðið að sjálfsögðu á meðal liða. "Þetta verður stærsta mót sem haldið hefur verið í handbolta. Við erum með gott lið og góðan þjálfara og ég vonast sannarlega eftir því að við náum langt."

Guðjón Valur ráðleggur yngri kynslóðinni að hlusta á þjálfara sinn til að ná árangri. "Oftast er það þjálfarinn sem hefur rétt fyrir sér. Lykillinn að öllum árangri er síðan að sjálfsögðu að æfa, og gera það vel."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×