Ian McEwan er með nýja skáldsögu í undirbúningi sem kemur út í Bretlandi á vormánuðum; On Chesle Beach. Laugardagur hans kom út í frábærri þýðingu Árna Óskarssonar fyrir hátíðir og hefur víðast hvar fengið góða dóma. Nýja skáldsaga McEwan gerist árið 1962 og lýsir sambandi hjóna.
Þá er von á nýrri sögu á ensku í vor eftir Murakami, After dark, og Graham Smith er tilbúinn með nýja skáldsögu sem heitir Tomorrow. Rithöfundurinn Norman Mailer sendir brátt frá sér bókina The Castle in the Forest en þar skrifar hann um Adolf Hitler.
Á fimmtudaginn gefur leikstjórinn David Lynch út bók sína Catching the Big Fish: Meditation, Consciousness, and Creativity en þar er á ferðinni uppbyggjandi rit um innblástur og íhugun þar sem leikstjórinn ráðleggur lesendum sínum hvernig fanga má hugmyndir og framkvæma þær. Lynch er þekktur fyrir frumlegheit svo þarna er án efa forvitnileg bók á ferð.