Þó ekki flórsköfur 25. mars 2007 06:15 Sú var tíð að tollskráin mælti fyrir um sérstakan toll á skóflur en þó ekki flórsköfur. Á sama hátt voru skýr ákvæði um toll á nagla en þó ekki hóffjaðrir. Þetta þótti sjálfsagt og eðlilegt. Tollskráin var reyndar fleytifull af mismunandi gildismati sambærilegra hluta. Skattalögin voru sama marki brennd. Það er ekki aðeins að þessi tími sé liðinn. Hugmyndafræðin sem réði þessu gildismati í skattalögum og tollskrám reyndist ekki góð og gild vara í búð reynslunnar. Hún ræður ekki lengur ríkjum. Eigi að síður finnast leifar hennar hér og þar. Samtök viðskipta og þjónustu lögðu spurningar fyrir talsmenn stjórnmálaflokkanna í tengslum við ársfund sinn í liðinni viku. Þær sneru eðlilega að ýmsum brennandi hagsmunamálum og voru um margt athygliverðar. Á sama veg má segja að hafi verið um svörin. Ein þessara spurninga vék að gömlu gildismati sem enn er við lýði áratugum eftir að menn hættu að gera greinarmun á skóflum og flórsköfum í tollskránni. Þetta er sú sérstaka skipan að selja gjaldfrjálsan varning í flughöfnum. Ríkissjóður selur rauðvínsflöskuna á lægra verði til þeirra sem ferðast til útlanda en hinna sem ekki ferðast. Jafnvel gleraugu hafa verið skattlögð með ólíkum hætti eftir því hvar þau eru keypt. Það eru tvær hliðar á þeim réttlætispeningi. Stjórnmálaflokkarnir voru allir á einu máli um að þessi skipan mála skyldi standa óbreytt. Ólík hugmyndafræði réði engu þar um. Hún megnaði ekki að rjúfa pólitíska einingu þegar að þessu kom. Jafnvel talsmenn verslunar og þjónustu töldu að ríkissjóður mætti selja vín með þessum hætti ef mismununin næði ekki til annarra vörutegunda. Ástæðurnar fyrir sameiginlegri afstöðu stjórnmálaflokkanna eru einfaldar. Skattlaus verslun er vitaskuld til vinsælda fallin. Í réttu hlutfalli við fjölgun ferðamanna nýtur vaxandi fjöldi þessa verðhagræðis. Líklegt er því að þeir yrðu fleiri sem létu afnám reglunnar fara fyrir brjóstið á sér en þeir sem sæju réttlæti í samræmdri skattlagningu. Enginn getur lokað augunum fyrir þessum einfalda veruleika. Afstaða stjórnmálaflokkanna á einnig rætur í þeirri staðreynd að þessi verslun skilar tekjum til uppbyggingar og viðhalds á flugstöðinni. Það er skiljanlegt sjónarmið rétt eins og menn gátu vel skilið að það var á sinni tíð þáttur í að tryggja afkomu bænda að hafa flórsköfurnar tollfrjálsar meðan aðrir, sem gegndu að mati þeirrar tíðar þýðingarminni verðmætasköpun, greiddu hærri toll af skóflum. En hvernig sem á málið er litið er spurning Samtaka verslunar og þjónustu um þetta efni bæði gild og réttmæt. Þó að hún sé ekki eitt af stóru málum þjóðfélagsumræðunnar á hún eigi að síður heima þar og með öllu ástæðulaust að gefa henni ekki gaum. Vegabréfaeftirlit á tilteknum stað í flugstöðvarbyggingu breytir því ekki að þar gilda íslensk lög, hegningarlög, lög um heilbrigðiseftirlit, vinnuvernd, jafnrétti, samkeppni og tekju- og eignaskatt svo dæmi séu tekin. Hvernig er unnt að rökstyðja að löggjöf um gjöld á vöru og þjónustu gildi þar ekki? Þegar um þetta mál er spurt er um leið komið við snöggan blett. Í góðu lagi er að hafa það í huga. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Þorsteinn Pálsson Mest lesið Halldór 28.12.2024 Halldór Veðurstofa Sjálfstæðisflokksins frestar fundi Daníel Hjörvar Guðmundsson Skoðun VII. Aðförin að Ólafi Jóhannessyni Hafþór S. Ciesielski Skoðun Ísland er ekki stjórntækt með verðtryggingu? Örn Karlsson Skoðun Orkuverð og sæstrengir Anna Sofía Kristjánsdóttir Skoðun Er sjávarútvegur einkamál kvótakónga? Finnbjörn A. Hermannsson Skoðun Ó Palestína Arnar Eggert Thoroddsen Skoðun Stórveldi eiga hagsmuni en ekki vini: Deilur tveggja NATO ríkja um Grænland Hilmar Þór Hilmarsson Skoðun Að þora að stíga skref Magnús Þór Jónsson Skoðun „Þetta er algerlega galið“ Hjörtur J. Guðmundsson Skoðun
Sú var tíð að tollskráin mælti fyrir um sérstakan toll á skóflur en þó ekki flórsköfur. Á sama hátt voru skýr ákvæði um toll á nagla en þó ekki hóffjaðrir. Þetta þótti sjálfsagt og eðlilegt. Tollskráin var reyndar fleytifull af mismunandi gildismati sambærilegra hluta. Skattalögin voru sama marki brennd. Það er ekki aðeins að þessi tími sé liðinn. Hugmyndafræðin sem réði þessu gildismati í skattalögum og tollskrám reyndist ekki góð og gild vara í búð reynslunnar. Hún ræður ekki lengur ríkjum. Eigi að síður finnast leifar hennar hér og þar. Samtök viðskipta og þjónustu lögðu spurningar fyrir talsmenn stjórnmálaflokkanna í tengslum við ársfund sinn í liðinni viku. Þær sneru eðlilega að ýmsum brennandi hagsmunamálum og voru um margt athygliverðar. Á sama veg má segja að hafi verið um svörin. Ein þessara spurninga vék að gömlu gildismati sem enn er við lýði áratugum eftir að menn hættu að gera greinarmun á skóflum og flórsköfum í tollskránni. Þetta er sú sérstaka skipan að selja gjaldfrjálsan varning í flughöfnum. Ríkissjóður selur rauðvínsflöskuna á lægra verði til þeirra sem ferðast til útlanda en hinna sem ekki ferðast. Jafnvel gleraugu hafa verið skattlögð með ólíkum hætti eftir því hvar þau eru keypt. Það eru tvær hliðar á þeim réttlætispeningi. Stjórnmálaflokkarnir voru allir á einu máli um að þessi skipan mála skyldi standa óbreytt. Ólík hugmyndafræði réði engu þar um. Hún megnaði ekki að rjúfa pólitíska einingu þegar að þessu kom. Jafnvel talsmenn verslunar og þjónustu töldu að ríkissjóður mætti selja vín með þessum hætti ef mismununin næði ekki til annarra vörutegunda. Ástæðurnar fyrir sameiginlegri afstöðu stjórnmálaflokkanna eru einfaldar. Skattlaus verslun er vitaskuld til vinsælda fallin. Í réttu hlutfalli við fjölgun ferðamanna nýtur vaxandi fjöldi þessa verðhagræðis. Líklegt er því að þeir yrðu fleiri sem létu afnám reglunnar fara fyrir brjóstið á sér en þeir sem sæju réttlæti í samræmdri skattlagningu. Enginn getur lokað augunum fyrir þessum einfalda veruleika. Afstaða stjórnmálaflokkanna á einnig rætur í þeirri staðreynd að þessi verslun skilar tekjum til uppbyggingar og viðhalds á flugstöðinni. Það er skiljanlegt sjónarmið rétt eins og menn gátu vel skilið að það var á sinni tíð þáttur í að tryggja afkomu bænda að hafa flórsköfurnar tollfrjálsar meðan aðrir, sem gegndu að mati þeirrar tíðar þýðingarminni verðmætasköpun, greiddu hærri toll af skóflum. En hvernig sem á málið er litið er spurning Samtaka verslunar og þjónustu um þetta efni bæði gild og réttmæt. Þó að hún sé ekki eitt af stóru málum þjóðfélagsumræðunnar á hún eigi að síður heima þar og með öllu ástæðulaust að gefa henni ekki gaum. Vegabréfaeftirlit á tilteknum stað í flugstöðvarbyggingu breytir því ekki að þar gilda íslensk lög, hegningarlög, lög um heilbrigðiseftirlit, vinnuvernd, jafnrétti, samkeppni og tekju- og eignaskatt svo dæmi séu tekin. Hvernig er unnt að rökstyðja að löggjöf um gjöld á vöru og þjónustu gildi þar ekki? Þegar um þetta mál er spurt er um leið komið við snöggan blett. Í góðu lagi er að hafa það í huga.
Stórveldi eiga hagsmuni en ekki vini: Deilur tveggja NATO ríkja um Grænland Hilmar Þór Hilmarsson Skoðun
Stórveldi eiga hagsmuni en ekki vini: Deilur tveggja NATO ríkja um Grænland Hilmar Þór Hilmarsson Skoðun