Viðskipti innlent

Nýjar námsleiðir við Háskóla Íslands

Nemendur við Háskóla Íslands Tveggja missera nám í gæðastjórnun og þjónustustjórnun er meðal þeirra nýjunga sem Háskóli Íslands býður í haust.
Nemendur við Háskóla Íslands Tveggja missera nám í gæðastjórnun og þjónustustjórnun er meðal þeirra nýjunga sem Háskóli Íslands býður í haust.

Í haust verður ný námsleið tekin upp í Háskóla Íslands. Um er að ræða þjónustustjórnun á vegum Viðskipta- og hagfræðideildar í samvinnu við Endurmenntun Háskóla Íslands. „Fjallað er um þjónustu fyrirtækja í mörgun námskeiðum innan viðskipta­fræðinnar.

Núna erum við búin að taka allt það efni og safna því saman í sérhæfð námskeið,“ segir Þórhallur Guðlaugsson, dósent við Háskóla Íslands. „Við teljum að mikil þörf sé á námi á borð við þetta. Styttri námskeið sem við höfum haldið í þjónustustjórnun hafa iðulega verið vel sótt. Ekki síst af einstaklingum sem eru að taka við þjónustustjórnun hjá fyrirtækjum.“

Námsleiðinni er einmitt sérstaklega beint að stjórnendum sem bera ábyrgð á þjónustu í fyrir­tækjum og stofnunum, sérfræðingum sem skipuleggja þjónustuna og einstaklingum sem vilja búa sig undir stjórnunarstörf á sviði þjónustu. Námið miðast við að nemendur geti stundað það samhliða vinnu. Nemendur sækja sex sérhæfð námskeið á sviði þjónustustjórnunar á tveimur misserum. Eitt námskeið verður kennt í einu og það klárað áður en það næsta tekur við.

Fleiri nýjungar eru væntanlegar í Háskóla Íslands í haust. Meðal annars mun nýtt nám í gæðastjórnun hefja göngu sína. Endurmenntun og verkfræðideild HÍ standa fyrir því í sameiningu. „Við höfum fundið fyrir miklum áhuga á lengra námi í gæðastjórnun, bæði hjá fyrirtækjum og einstaklingum. Námskeiðin okkar á sviði gæðastjórnunar hafa alltaf verið yfirfull og endurtekin á hverri önn,“ segir Hans Júlíus Þórðarson, kynningarstjóri hjá Endurmenntun Háskóla Íslands. „Nám í gæðastjórnun hefur líka víða skírskotun og getur nýst fólki með mjög ólíkan bakgrunn.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×