Innlent

Sjötíu lögreglumenn á vakt

Þegar kjör­kassar eru fluttir milli staða þarf lögreglan að fylgjast með.

Fréttablaðið/Róbert
Þegar kjör­kassar eru fluttir milli staða þarf lögreglan að fylgjast með. Fréttablaðið/Róbert

Mikill viðbúnaður er hjá lögreglu vegna kosninganna í dag og kosninganæturinnar sem fram undan er. Í flestum umdæmum lögreglunnar eru kallaðar út aukavaktir.

„Í dag verða um sjötíu lögreglumenn við störf á höfuðborgarsvæðinu vegna kosninganna. Það er svipað og var í kringum síðustu kosningar en mun meira en við eigum að venjast á venjulegum laugardegi,“ segir Geir Jón Þórisson, yfirlögregluþjónn á höfuðborgarsvæðinu.

Lögreglan sinnir ýmsum verkefnum vegna kosninganna, fylgist með að allt sé í röð og reglu á kjörstað og tekur þátt í flutningi kjörgagna.

„Það má einnig búast við að það verði mikið um að vera í nótt en þá verða í kringum 45 lögregluþjónar á vakt, sem er aðeins meira en um venjulega helgi,“ segir Geir Jón. Hjá lögreglunni á Akureyri verður aukamannskapur á vakt í dag vegna kosninganna og það sama er uppi á teningnum annars staðar.

Kjördæmin eru víðfeðm og víða þarf lögregla að keyra langar vegalengdir með kjörkassa. Mikil umferð kann að myndast í grennd við kjörstaði og lögreglan á höfuðborgarsvæðinu varar sérstaklega við umferðarþunga í miðborginni. Búast má við að margir leggi leið sína í Ráðhúsið til þess að kjósa en á sama tíma er mikið um að vera í miðborginni vegna Listahátíðar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×