Viðskipti innlent

Sægreifinn og Búllan í Washington Post

Örn Hreinsson, rekstrarstjóri Búllunnar. Greinarhöfundur Washington Post kallar mat Hamborgarabúllunnar og Sægreifans „köld kjarakaup“.
Örn Hreinsson, rekstrarstjóri Búllunnar. Greinarhöfundur Washington Post kallar mat Hamborgarabúllunnar og Sægreifans „köld kjarakaup“. MYND/E.Ól.

Fallega var fjallað um veitingastaðina Hamborgarabúlluna og Sægreifann í grein í Washington Post fyrr í mánuðinum. Greinarhöfundur segir frá upplifun sinni og samferðamanns hans í ætisleit á götum Reykjavíkurborgar.

Segir frá því hvernig þeir hrökkluðust frá hverjum veitingastaðnum á fætur öðrum eftir að hafa litið matseðlana augum, eða öllu heldur verð þeirra. Lýsir höfundurinn þeirri upplifun að sjá pakistanskan kjúklingakarrírétt verðlagðan á 27 dollara og pitsu á átján dollara. Hann tekur sérstaklega fram að hann hafi ferðast um margar dýrustu borgir heims. Verðið á Íslandi sprengi alla skala.

Í greininni segir að þeir ferðafélagar hafi verið orðnir heldur framlágir og sársvangir er þeir loksins komu að Sægreifanum. Þar gæddu þeir sér á humarsúpu og hvalsteik og drukku heimabruggað víkingaöl með. Fyrir það borguðu þeir 45 bandaríkjadali.

Á Sægreifanum fengu ferðalangarnir svo fregnir af því að í næsta húsi mætti fá bestu hamborgara Íslands. Bandaríkjamennirnir létu ekki segja sér það tvisvar og voru mættir á Hamborgarabúlluna í næsta hádegi. Þar snæddu þeir borgara og franskar úr bastkörfum og drukku mjólkurhristing með. Matinn, myndirnar af poppstjörnum upp um alla veggi og útsýnið yfir hafið kunnu þeir vel að meta. Máltíðin kostaði þá þrjátíu dollara.

Tekið er fram í lok greinarinnar að Ísland snúist um svo mikið meira en mat. Hins vegar komi fátt í staðinn fyrir góða máltíð á sanngjörnu verði. Matur Sægreifans og Hamborgarabúllunnar væru „köld kjarakaup í hinni dýru höfuðborg Íslands“.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×