Skoðun

Laugarvatnshátíð 9. júní

Samtök, sem kalla mætti Vini Laugarvatns, hafa undirbúið hátíð á Laugarvatni 9. júní nk. Markmiðið er að vekja áhuga og skilning almennings og ráðamanna á viðhaldi blómlegrar byggðar á skólasetrinu Laugarvatni.

Suðurland skartar margri prýði, fjölbreyttri náttúru og mannlífi og fornhelgum sögustöðum, sannkölluðum þjóðargersemum. Á síðari mannsöldrum hafa verið efldar í landinu nýjar byggðir að kalla, sem blómstrað hafa fyrir atorku nýrra kynslóða, m.a. á Suðurlandi, sem við beinum nú sjónum okkar að. Þannig ávöxtum við það sem enn er nefnt þjóðararfur í góðum og gildum ungmennafélagsanda. Þeim anda er þörf að halda við og leika með í samspili við jákvæða alþjóðahyggju. Þetta tvennt þarf að fara saman.

Einn þeirra staða sem skapaðir voru og mótaðir af mannshuga og manna höndum á 20. öld, nýliðinni framfaraöld á Íslandi, er skólasetrið á Laugarvatni. Af því verki öllu saman er mikil saga, og mörg nöfn tengjast Laugarvatnssögu. Ofarlega eru nöfn hinna hugsjónaríku Laugarvatnshjóna, Böðvars og Ingunnar sem þar bjuggu við rausn um áratugi, en seldu jörð sína undir skólabyggð án fjárhagslegs ágóða. Bjarni á Laugarvatni, skólastjóri þar lengst allra manna, er höfuðkempa skólasögunnar og nafn hans uppi.

Hátíðin á laugardaginn er þó nefnd Jónasar­vaka, kennd við hinn eina sanna Jónas frá Hriflu sem í nafni valds síns batt enda á langvinnar deilur um skólastað með því að fyrir­skipa Sunnlendingum að reisa skólann á Laugarvatni. Guðjón Samúelsson arkitekt hafði raunar löngu áður bent á þessa varmavatnskvos undir heiðarfjöllum sem vænlegastan skólastað í sveit á Suðurlandi. Um þá Jónas og Guðjón hafa oft staðið harðar deilur, lifandi og dauða. En nú kemur saman hópur lærðra manna til þess að fjalla um hlut þeirra í uppbyggingu Laugarvatns. Má með sanni ætla að þessi Jónasarhátíð verði bæði fróðleg og skemmtileg. Þar láta ljós sitt skína ekki minni menn í fræðunum en Guðjón Friðriksson, Helgi Skúli, Ívar Jónsson og Pétur Ármannsson undir styrkri stjórn Guðmundar Ólafssonar. Að þessu loknu verður haldin þjóðleg kvöldvaka með fjölbreyttri skemmtidagskrá.

Höfundur er fyrrverandi alþingismaður og ráðherra.




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×