Menning

19 ára sýnir í Tukt

Nítján ára með einkasýningu í Gallerí Tukt.
Nítján ára með einkasýningu í Gallerí Tukt.

Viktoría Tsvetaeva er nítján ára listnemi við Lista- og iðnháskólann í Moskvu sem hefur opnað einkasýningu í Gallerí Tukt, Hinu Húsinu. Viktoría var yngsti nemandinn til að hefja nám við skólann árið 2004 en þá var hún aðeins sextán ára. „Ég er að sýna ljósmyndir, olíumálverk, leðurhálsmen og armbönd en allt á sýningunni tengist að vissu leyti jákvæðu lífi og hippatímabilinu. Leðurarmböndin eru í brúnum og appelsínugulum litum eins og voru í tísku þá og ljósmyndirnar eru af blómabörnum."

Viktoría hefur átt athyglisverða ævi og hefur nú þegar búið í fjölmörgum löndum. „Ég er hundrað prósent Rússi en flutti frá Moskvu þegar ég var tveggja ára. Svo bjó ég í Svíþjóð í fjögur ár, þá Finnlandi í þrjú og þaðan fór ég til Íslands. Fyrst bjó ég á Dalvík en var svo þrjú ár í Reykjavík í 8.-10. bekk. Ég var svo að spá í að fara í Fjölbraut í Breiðholti en ákvað frekar að skella mér til Rússlands. Datt í hug að reyna að fara beint í háskóla og fékk inngöngu í vinsælasta hönnunarskólann í Moskvu," segir Viktoría glaðlega en hún stundar nám við auglýsinga- og grafíska hönnunarbraut.

„Mér finnst frábært að búa hér enda á ég hérna fjölskyldu og fullt af vinum," segir þessi ungi og alþjóðlegi listnemi. Sýningin stendur til 30. ágúst.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Viðburðir

Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.