Fjármálaeftirlitið (FME) og Kredittilsynet í Noregi hafa gert með sér samning um samstarf vegna starfsemi útibús Kaupþings í Noregi.
Í tilkynningu FME kemur fram að ástæða samningsins sé að Kaupþing hafi sótt um aðild að innistæðutryggingasjóði norskra banka (Bankenes sikringsfond), en það sé gert til að tryggja að viðskiptavinir bankans í Noregi njóti sömu innistæðutryggingar og viðskiptavinir norskra innlánsstofnana. „Vernd innistæðueigenda er töluvert hærri í Noregi en á Íslandi. Með aðild Kaupþings að norska innistæðutryggingasjóðnum felst að sjóðurinn myndi þá greiða mismuninn á milli norsku og íslensku innistæðutryggingarinnar ef til þess kæmi,“ segir í tilkynningunni.
Samstarfssamningur FME og Kredittilsynet er sagður snúa að samstarfi eftirlitsaðilanna varðandi þessa aðild Kaupþings að sjóðnum, en forstjórar eftirlitsstofnananna, Jónas Fr. Jónsson og Björn Skogstad Aamo, skrifuðu undir samninginn í Ósló síðastliðinn fimmtudag, þar sem stóð yfir árlegur forstjórafundur norrænna fjármálaeftirlita.