Fulltrúar frá tólf íslenskum fyrirtækjum hittust á tveggja daga vinnufundi í London í síðustu viku. Markaði fundurinn upphafið á þátttöku fyrirtækjanna í Útstími, verkefnis á vegum Útflutningsráðs. Samkvæmt tilkynningu er verkefnið sérsniðið að þörfum þeirra fyrirtækja sem eru að leita að umboðsmönnum eða söluaðilum fyrir vöru og þjónustu á erlendum mörkuðum. Fulltrúar fyrirtækjanna hittu meðal annars ráðgjafa frá ýmsum löndum og tóku ákvörðun um aðferðafræði að baki markaðssókn sinni. Breska ráðgjafarfyrirtækið Europartnerships er samstarfsaðili Útflutningsráðs í verkefninu.
Þau tólf fyrirtæki sem taka þátt í Útstíms-verkefninu eru AGR, sem hyggst selja hugbúnað í Bretlandi, Hvalaskoðun Reykjavík, sem hyggst herða tök sín á markaðnum í Svíþjóð og Bretlandi, Stiki, sem áætlar að finna samstarfaðila í Bretlandi, Alrún, sem áætlar að hefja útflutning á skartgipum til Svíþjóðar og Danmerkur, skartgripafyrirtækið Sign sem hyggur á landvinninga í Svíþjóð, Líftæknifyrirtækið Norðurbragð, sem áætlar að auka sölu sína í Bretlandi, GT-Group sem leitar markaða fyrir vörur sínar í Bretlandi, Borgarplast sem leitar markaða í Tyrklandi og Mexíkó, Mentor, sem hyggst styrkja stöðu sína í Svíþjóð og leita nýrra markaða í Bretlandi, skartgripaframleiðandinn Aurum sem mun leita umboðsmanna í Bretlandi, fyrirtækið Húfur sem hlæja leitar umboðsmanna í Noregi og Finnlandi og veffyrirtækið Digital Horse markaðssetur vörur sínar í Svíþjóð. - hhs