Sport

Frábær árangur hjá íslenska badmintonfólkinu

Mynd/Vilhelm
Íslenska badminton landsliðið lagði það svissneska í undanúrslitum evrópukeppni B-þjóða í Laugardalshöll nú undir kvöldið og tryggði sér þar með þátttökuréttinn í Evrópukeppni A-þjóða. Enn og aftur var það sigur í lokaleiknum sem réði úrslitum.

Íslenska liðið byrjaði á sigri í Tvenndarleik þar sem Tinna Helgadóttir og Helgi Jóhannesson unnu andstæðinga sína með tveimur lotum gegn einni, 21-16, 15-21, 21-19. Magnús Ingi Helgason beið svo lægri hlut í einliðaleik karla og Svisslendingar náðu að jafna, 1-1. En Ragna Ingólfsdóttir kom Íslendingum í 2-1 með sigri í einliðaleik kvenna en aftur jafnaði Svissneska liðið með sigri í tvíliðaleik karla og staðan því 2-2 fyrir síðustu viðureignina, tvíliðaleik kvenna.

Þar voru það Ragna og TInna sem unnu nauman og dramatískan sigur á keppinautum sínum. Eftir að hafa tapað fyrstu lotu unnu þær íslensku næstu tvær lotur í hnífjafnri keppni og endurtóku þar með leikinn frá því í gær þegar þær tryggðu Íslandi sigur í riðlinum í síðasta leik gegn Portúgölum.

Ísland er því komið í úrslit á mótinu og öruggt með sæti í Evrópukeppni A-þjóða í Danmörku í apríl á næsta ári.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×