Menning

Leyndarmál hraunanna - elstu dýr Íslands

Jörundur Svavarsson, prófessor við Háskóla Íslands og Bjarni K. Kristjánsson, frá Hólaskóla, munu halda erindi í fyrirlestraröðinni Undur Veraldar laugardaginn 3. mars. Ber erindið heitið Leyndarmál hraunanna - elstu dýr Íslands. Er það Raunvísindadeild Háskóla Íslands sem stendur fyrir fyrirlestrarröðinni. Verður erindið haldið í Öskju, náttúrufræðihúsi Háskóla Íslands, sal 132 og hefst klukkan 14:00.

Íslenskt grunnvatn var til skamms tíma talið vera líflaust. Á undanförnum árum hefur hins vegar komið í ljós að í grunnvatni í gljúpu hrauni lifa tvær tegundir marflóa. Þessar tvær tegundir finnast eingöngu á Íslandi. Í erindinu verður fjallað um útbreiðslu tegundanna og lifnaðarhætti þeirra. Verður kynnt tilgáta þess eðlis að þessar tegundir hafi lifað undir jökli á ísöldum og séu því elstu núlifandi tegundir landsins. Enn fremur verður leitað svara við spurningunni um hvaðan þessar dýrategundir komu upphaflega og hvernig þær komust til Íslands.

Undur Veraldar






Fleiri fréttir

Sjá meira


×