Vífilfell, framleiðendur Coca-Cola á Íslandi hafa ákveðið að hætta framleiðslu á kóladrykknum TAB. Enn á eftir að framleiða eina lotu af TAB í hálfslítra flöskum og má búast við að birgðirnar af því endist fram eftir vori. Eftir það verður TAB ekki fáanlegt hér á landi.
Í tilkynningu segir að TAB hafi fyrst komið á markað hér á landi árið 1982 og sé því einn lífseigasti kóladrykkurinn hér á landi. Þetta var fyrsti kaloríusnauði gosdrykkurinn sem Coca-Cola Company framleiddi. Hlutur TAB á markaði sykurlausra kóladrykkja hefur farið minnkandi og er drykkurinn bara seldur í örfáum löndum heims í dag.
Búast má við því að aðdáendur TAB verði heldur svekktir við brotthvarf drykksins úr hillum söluturna.