Viðskipti innlent

Festa skilaði 18,8 prósenta ávöxtun

Nafnávöxtun Festu lífeyrissjóðs var 18,8 prósent á árinu 2006, sem jafngildir 11,3 prósenta raunávöxtun. Í árslok 2006 var hrein eign til greiðslu lífeyris rúmir 48,6 milljarðar og hækkaði hún um 23,4 prósent á milli ára.

Í tilkynningu frá lífeyrissjóðnum segir að meðaltal hreinnar raunávöxtunar síðustu 5 ára er 6,6 prósent og er þá ávöxtun beggja sjóða hlutfölluð miðað við hreina eign sjóðanna í lok hvers árs.

Ávöxtun séreignardeildar sjóðsins var einnig góð, eða 15,9 prósent, sem jafngildir 8,4 prósenta raunávöxtun.

Góðri afkomu ársins 2006 má fyrst og fremst þakka hagstæðum skilyrðum á verðbréfamörkuðum, bæði innanlands sem utan. Þannig hækkaði Úrvalsvísitala Kauphallar Íslands um 15,8 prósent og erlend hlutabréf um 17,8 prósent í erlendri mynt, en sökum mikillar veikingar krónu gagnvart helstu myntum, hækkaði heimsvísitala hlutabréfa um 32,8 prósent, að því segir í tilkynningunni.

Stjórn sjóðsins mun leggja til við aðalfund að áunnin réttindi sjóðfélaga og lífeyrisþega verði aukin um 4 prósentum frá og með 1. janúar á þessu ári. Þrátt fyrir þessa hækkun réttinda mun staða sjóðsins verða jákvæð um 4,4 prósent eða rúma 4 milljarða.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×