Innlent

Vill þjóðarsátt um nýtt jafnvægi í efnahagsmálum

Frá landsfundi Samfylkingarinnar.
Frá landsfundi Samfylkingarinnar. MYND/Anton Brink

Samfylkingin vill þjóðarsátt um nýtt jafnvægi í efnahagsmálum og hyggst hrinda í framkvæmd aðgerðaáætlun gegn fátækt. Þetta er meðal þess sem fram kemur í stjórnmálaályktun flokksins sem samþykkt var á landsfundi hans í dag.

Enn fremur kemur fram í stjórnmálaályktuninni að efling velferðarkerfisins og ábyrg efnahagsstjórn séu rauði þráðurinn í stefnu Samfylkingarinnar. Samfylkingin vilji þjóðarsátt um nýtt jafnvægi í efnahagsmálum og ný vinnubrögð til að tryggja samstillingu efnahagsaðgerða.

Þá vilji flokkurinn rétta hlut aldraðra og öryrkja gagnvart almannatryggingum, tryggja aðgengi allra að heilbrigðiskerfinu óháð efnahag og útrýma biðlistum með fjögur hundruð nýjum hjúkrunarrýmum á næstu tveimur árum. Enn fremur verði gripið til aðgerða gegn fátækt og sömuleiðs hrint í framkvæmd aðgerðaáætlun um málefni barna.

Töluverð áhersla er lögð á kynjajafnrétti í stjórnmálaályktuninni og sagt að Samfylkingin vilji útrýma launamun kynjanna, afnema launaleynd, koma á fullu jafnrétti milli karla og kvenna og gera Ísland að fyrirmyndarsamfélagi á sviði jafnréttismála.

Þá vilji flokkurinn stuðla að gjaldfrjálsri menntun frá leikskóla að háskóla og að námsbækur í framhaldsskólum verði nemendum að kostnaðarlausu. Breyta þurfi þriðjungi námslána í styrk og greiða námslán út mánaðarlega.

 

Þá vill flokkurinn gera rekstarumhverfi fyrritækja hagstæðara svo erlend fyrirtæki sæki hingað í auknum mæli. Þá þurfi að lækka skatta af lífeyrissjóðsgreiðslum í tíu prósent og frítekjumark fyrir atvinnu- og lífeyristekjur eldri borgara verði 100.000 krónur, stimpilgjöld af lánum vegna húsnæðiskaupa verði afnumin, sem og vörugjöld og tollar af matvælum. Þá verði virðisaukaskattur af lyfjum lækkaður.

Ráðast þurfi í stórátak í samgöngumálum að mati Samfylkingarinnar en það sé forsenda raunhæfrar byggðastefnu. Frekari stjóriðjuáformum verði hins vegar slegið á frest þangað til fyrir liggi nauðsynleg heildaráætlun yfir verðmæt náttúrusvæði Íslands og verndun þeirra hafi verið tryggð. Þá vill flokkurinn tímasetta áætlun um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar og að sameign á auðlindum verði bundin í stjórnarskrá.

Í utanríkismálum vill flokkurinn að sótt verði um aðild að Evrópusambandinu og aðildarviðræður verði hafnar. Unnið verði að víðtækri samstöðu um samningsmarkmið og niðurstöður bornar um þjóðaratkvæði.

Þá vill Samfylkinging endurskoða stjórnarráð Íslands, stofna eitt atvinnuvegaráðuneyti, tryggja faglegar ráðningar í opinber embætti og stuðla að jafnræði kynjanna í ríkisstjórn og í stjórnunarstöðum ráðuneyta og stofnana. Jafnframt að eftirlaunafrumvarpinu verði breytt og meira jafnræði komið á í lífeyrismálum ráðamanna og almennings.

Segir að lokum í stjórnmálaályktuninni að það sé þjóðarnauðsyn að bæta fyrir vanrækslusyndir ríkisstjórnarinnar á undanförnum árum og að þann 12. maí verði kosið um framtíð lands og framtíð þjóðar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×