Viðskipti innlent

Yfirtökutilboð í Stork

Evrópska fjárfestingafélagið Candover hefur gert yfirtökutilboð í hollensku samstæðuna Stork NV upp á tæpar 47 evrur á hlut en boðið hljóðar upp á 1,47 milljarða evrur, jafnvirði tæpra 123 milljarða íslenskra króna. Hollenska félagið LME Holding, sem Marel á 20 prósenta hlut í ásamt Eyri Invest og Landsbankanum, flaggaði 11 prósenta hlut í Stork í síðustu viku.

Gengi Stork tók mikinn kipp í kauphöllinni í Amsterdam við fréttirnar og rauk upp um 9,3 prósent en þetta er hæsta gildi þeirra síðan í maí í fyrra.

Greiningardeild Landsbankans segir að Candover hafi lýst miklum áhuga á starfsemi Stork og hefur gefið til kynna vilja til að halda áfram núverandi stefnu Stork um að halda áfram að vaxa með innri vexti og yfirtökum.

 

Stærstu hluthafar Stork hafa þrýst á um skiptingu félagsins í þrjár einingar og hefur Marel frá síðasta hausti sóst eftir því að kaupa matvælavinnsluvélahluta samstæðunnar. Stjórn félagsins hefur hins vegar verið mótfallin skiptingu félagsins og kosið að selja það í heilu lagi.

Greiningardeild Landsbankans segir í Vegvísi sínum í dag að svo virðist sem Candover sé sömu skoðunar og stjórnendur Stork en engin leið sé að segja til um hvaða áhrif þetta muni hafa á áform Marels.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×